10.03.22

Vottorð um jákvæð hraðpróf vegna COVID-19 í Heilsuveru

Nú eru vottorð um jákvæð hraðpróf vegna COVID-19 komin í Heilsuveru. Vottorð eru sótt vinstra megin á Mínum síðum undir Heimasvæði þar sem segir „COVID-19 - Vottorð“. Ef hraðpróf er framkvæmt á viðurkenndum sýnatökustað birtist vottorð um niðurstöðu rannsóknar undir „Vottorð vegna COVID-19 smits“ með sýnatökudagsetningu (niðurstöður koma samdægurs fyrir hraðpróf).

Samevrópska QR kóða vottorð um bata (e. EU Digital COVID Certificate of Recovery) birtist svo 11 dögum frá rannsókn undir „QR kóða vottorð vegna COVID-19 smits“. Skv. reglum Evrópusambandsins, sem gilda hérlendis, má fyrst gefa út vottorð um bata 11 dögum eftir próf sem reynist jákvætt. Reglan um 11 daga hefur gilt um PCR próf um bata og verður það óbreytt fyrir þá sem fara í PCR próf.

Sýnatökustaður og tegund prófs kemur fram á vottorði. Vottorð um jákvæð COVID próf gilda í 6 mánuði.

Við minnum fólk á að kynna sér vel reglur í þeim löndum sem það ferðast til og hvaða takmarkanir gilda bæði á landamærum og innanlands. Þá mælir sóttvarnalæknir ekki með að fólk sé að ferðast með virka sýkingu (almennt er fólk talið smitandi í 5–7 daga frá byrjun einkenna/greiningu COVID-19).

Sóttvarnalæknir

<< Til baka