17.02.22

Raðgreiningar á SARS-CoV-2 veirunni sem veldur COVID-19

Snemma í janúar sl. gaf sóttvarnalæknir út að stefnt væri að því að setja upplýsingar um raðgreiningar hjá þeim sem hefðu smitast af SARS-CoV-2 veirunni sem veldur COVID-19 inn í Heilsuveru hjá hverjum og einum.

Á þeim tíma var ómíkron afbrigðið að taka yfir delta hér á landi. Eftir stigvaxandi fjölda smita í desember sl. jukust smit gríðarlega í janúar þegar um 1000 smit greindust hvern dag en í febrúar hefur smitum fjölgað enn frekar og dagleg greind smit verið um 1200 til 2000. Þessi mikli fjöldi smita er langt umfram getu til raðgreiningar hjá Íslenskri erfðagreiningu sem hefur séð um að allar raðgreiningar vegna COVID-19 á Íslandi. Þannig hefur ekki verið hægt að raðgreina öll sýni undanfarið eins og áður var gert.

Þá hefur raðgreining leitt í ljós að ómíkrón afbrigðið hefur nú algjörlega yfirtekið delta og er svokallað BA.2 afbrigði þess allsráðandi.

Sóttvarnalæknir hefur því ákveðið að hætt verði að raðgreina öll jákvæð sýni. Íslensk erfðagreining mun áfram að beiðni sóttvarnalæknis og í samvinnu við sýkla- og veirufræðideild Landspítala raðgreina ákveðið úrtak sýna til að fylgjast með hvaða afbrigði berast til landsins og breiðast hér út. Niðurstöður raðgreininga sem hafa verið gerðar hingað til munu berast inn í Heilsuveru viðkomandi einstaklinga á næstunni.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka