02.02.22

Örvunarbólusetningar 12-15 ára gegn COVID-19

Ekki er mælt með almennri örvunarbólusetningu 12-15 ára unglinga gegn COVID-19 eins og er.

Notkun örvunarskammts fyrir hrausta unglinga hefur ekki markaðsleyfi í Evrópu. Mælt er með þriðja skammti eingöngu fyrir börn og unglinga sem ekki eru talin svara tveimur skömmtum á fullnægjandi hátt, sú notkun er tilgreind í markaðsleyfi og fylgiseðli bóluefnis frá Pfizer/BioNTech. Sjá hér að neðan.

Mælt er með almennum örvunarskammti fyrir unglinga á þessum aldri í Bandaríkjunum, niðurstaða yfirvalda þar (FDA og ACIP) byggir á:

  • Öryggisupplýsingum frá Ísrael: 6000 unglingar með örvunarskammt, engar nýjar aukaverkanir, mynstur aukaverkana svipað og hjá fullorðnum. Þetta er mjög lítill hópur þar sem alvarlegar aukaverkanir hafa tíðni nálægt 5/100.000 við bólusetningu #2 fyrir þennan aldur.
  • Vörn gegn smiti (delta) dvín á svipaðan hátt og hjá fullorðnum en byrjar hærra. Við 4 mánuði eftir bólusetning er virkni gegn delta smiti hjá 12-15 ára unglingum svipuð og strax í kjölfar bólusetningar hjá eldri unglingum og fullorðnum (sjá glæru 18 hér).
  • Gögnum um þriðja skammt gegn omikron í fullorðnum.

Þessi atriði eru ekki fullnægjandi rök fyrir almennri örvunarbólusetningu hjá þessum aldurshópi meðan markaðsleyfi er ekki útvíkkað. Ef reynslan af þessari notkun í Bandaríkjunum skilar fullnægjandi upplýsingum um aukaverkanir og gagnsemi er mögulegt að mælt verði með almennri örvunarbólusetningu þótt ekki verði komið markaðsleyfi. Ef markaðsleyfi verður útvíkkað munu unglingar geta sóst eftir örvunarbólusetningu ef ástæða er til, þótt ekki verði komin almenn meðmæli með örvunarbólusetningunni hér á landi.

Börn frá 5 ára aldri, með ónæmisbælandi sjúkdóma eða á ónæmisbælandi lyfjum, geta fengið þriðja skammt u.þ.b. 3 mánuðum eftir skammt #2, ef meðhöndlandi læknir lætur forsjáraðila fá læknabréf um að þörf sé fyrir skammtinn. Sýna þarf læknabréfið á bólusetningarstað. Heilsugæslan getur gefið upplýsingar um hvenær viðeigandi bóluefni er í notkun á hverjum stað.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka