26.01.22

Tannverndarvika 31. janúar – 4. febrúar 2022

Tannlækningar barna – tölfræði – gagnvirk birting

Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir tannverndarviku dagana 31. janúar - 4. febrúar 2022 með skilaboðum til landsmanna um að huga vel að tannheilsunni.

Í tilefni af tannverndarviku er nýtt mælaborð tannheilsu gert aðgengilegt á vef embættis landlæknis. Mælaborðið er gagnvirkt en þar eru birtar tölulegar upplýsingar, sem varða tannheilsu íslenskra barna. Mælaborðið byggir á gögnum frá Sjúkratryggingum Íslands og ná þau aftur til ársins 2005. Stefnt er að árlegri uppfærslu mælaborðs tannheilsu.

Í áætlun embættis landlæknis um gæðaþróun er gert ráð fyrir að fylgst sé með gæðum og árangri heilbrigðisþjónustunnar, þar með talið tannheilbrigðisþjónustu, með tilteknum landsgæðavísum. Fyrrnefnt mælaborð er liður í áætlun landlæknis um gæðaþróun en það sýnir fyllingar í tönnum sjúkratryggðra barna/ungmenna, sem eru í virku eftirliti hjá heimilistannlæknum.

Gögnin, sem skoða má fyrir hvert heilbrigðisumdæmi fyrir sig og í samanburði við landið í heild, gefa góðar vísbendingar um batnandi tannheilsu barna/ungmenna og betra aðgengi að tannlæknaþjónustu.

Í tannverndarviku er foreldrum og forráðamönnum bent á að kostnaður vegna almennra tannlækninga barna er greiddur af Sjúkratryggingum Íslands, fyrir utan 2.500 kr. árlegt komugjald sem greitt er einu sinni á 12 mánaða tímabili. Forsenda gjaldfrjálsra tannlækninga er að börn hafi heimilistannlækni og bera foreldrar ábyrgð á tímapöntun hjá heimilistannlækni og skráningu í Réttindagátt Sjúkratrygginga Íslands. Foreldrum/forráðamönnum er enn fremur bent á að panta tíma í fyrstu tannskoðun þegar börn eru tveggja ára. Heimilistannlæknar geta gengið frá skráningunni í gáttinni þegar mætt er í bókaðan tíma.

Gjaldfrjálsar tannlækningar ná yfir eftirlit, forvarnir, flúormeðferð, skorufyllur, tannfyllingar, rótfyllingar og annað sem telst til nauðsynlegra tannlækninga barna yngri en 18 ára.

Í Tannverndarviku eru stjórnendur leik-, grunn- og framhaldsskóla hvattir til að leggja áherslu á fræðslu, umfjöllun og viðburði sem tengjast tönnum og tannheilsu. Fræðsluefni og myndbönd um tannhirðu má nálgast á landlaeknir.is og heilsuvera.is.

Þá eru fyrirtæki sem flytja inn og selja tannhirðuvörur hvött til að nýta sér tannverndarvikuna til að kynna vörur sínar. Einnig eru stjórnendur verslana hvattir til að bjóða afsláttarkjör af tannhirðuvörum og hollri matvöru í tannverndarviku og afnema á sama tíma afsláttarkjör af sælgæti og súrum drykkjum.

Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir
holmfridur.gudmundsdottir@landlaeknir.is

<< Til baka