15.12.21

Framboð á fersku grænmeti og ávöxtum minnkar frá árinu 2014

Fæðuframboð á Íslandi 2020

Embætti landlæknis birtir nú upplýsingar um fæðuframboð, kg/íbúa á ári, á Íslandi fyrir árið 2020 (fæðuframboð = framleiðsla + innflutningur – útflutningur – önnur not). Slík birting var síðast unnin árið 2014 en vegna mikils fjölda erlendra ferðamanna undanfarin ár hefur ekki verið hægt að greina á milli neyslu þeirra og neyslu landsmanna á matvælum. Árið 2020 voru hins vegar fáir erlendir ferðamenn hér á landi og einnig ferðuðust Íslendingar mest innanlands. Þótt fæðuframboðstölur veiti ekki beinar upplýsingar um neyslu matvæla gefa þær vísbendingar um þróun á mataræði þjóðarinnar.
 

Minna framboð á fersku grænmeti og ávöxtum

Ef litið er á þróun á framboði á fersku grænmeti kemur í ljós að það hefur minnkað úr 53 kg/íbúa árið 2014 í 51 kg/íbúa árið 2020. Framboð á ferskum ávöxtum hefur dregist verulega saman úr 66 kg/íbúa árið 2014 í 58 kg/íbúa árið 2020. Hins vegar hefur framboð á grænmetisvörum (frystum, niðursoðnum og þurrkuðum) t.d. niðursoðnum tómatvörum og þurrkuðum baunum aukist í heildina úr 17 kg/íbúa árið 2014 í 20 kg/íbúa árið 2020. Framboð á ávaxtavörum hefur einnig aukist úr 26 kg/íbúa árið 2014 í 29 kg/íbúa árið 2020 og er það aðallega aukning í framboði á ávaxtasafa.

Auka þarf neyslu á ávöxtum og grænmeti til að takmarkinu um fimm skammta, eða 500 grömm, af grænmeti og ávöxtum á dag sé náð, eins og ráðlagt er. Rétt er að vekja athygli á því að ávaxtasafar teljast ekki lengur með í fimm skömmtum á dag.

Framboð á mjólk og mjólkurvörum minnkar

Sala á drykkjarmjólk (nýmjólk, léttmjólk og undanrennu) minnkar í heildina frá 2014 úr 95 kg/íbúa á ári í 69 kg/íbúa á ári 2020. Ekki var hægt að fá upplýsingar um sölu einstakra tegunda drykkjarmjólkur árið 2014 en nú er nýmjólk komin í mikinn meirihluta og er  41 kg/íbúa á móti 24 kg/íbúa af léttmjólk og undanrenna og fjörmjólk er einungis 4 kg/íbúa á ári. Árið 2007 þegar síðast voru birtar upplýsingar fyrir einstakar tegundir drykkjarmjólkur þá var framboð á nýmjólk og léttmjólk jafnmikið, 49 kg/íbúa og framboð á undanrennu og fjörmjólk 16 kg/íbúa. Einnig minnkar framboð á sýrðum mjólkurvörum, skyri og ostur minnkar einnig lítillega en rjómaskyr eykst frá árinu 2014.

Mælt er með tveimur skömmtum af fituminni, ósykruðum eða lítið sykruðum mjólkurvörum án sætuefna daglega fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri. Ostur getur komið í stað mjólkurvara að hluta til, einn skammtur af mjólkurvörum jafngildir þá 25 g af osti. Þeir einstaklingar sem neyta ekki mjólkur eða mjólkurvara þurfa að huga vel að öðrum kalkgjöfum úr fæðunni t.d. er hægt að velja jurtamjólk og jurtavörur sem eru kalkbættar eða taka kalktöflur.

Framboð á sykri heldur minna en sælgæti heldur meira

Sykurframboðið hefur heldur minnkað frá árinu 2014 en þá var það 42 kg/íbúa en var 40 kg/íbúa 2020. Um er að ræða innfluttan sykur og sykurhluta úr innfluttum sykurríkum vörum. Mælt er með minni neyslu á viðbættum sykri en vörur sem innihalda mikið af viðbættum sykri veita oftast lítið af nauðsynlegum næringarefnum og öðrum hollum efnum.

Sælgætisframboðið hefur aukist frá árinu 2014 og var 18 kg/íbúa en er komið í 20 kg/íbúa árið 2020 sem samsvarar um 374 g/íbúa á viku. Mælt er með því að gæta hófs í neyslu á sælgæti og fá sér frekar hnetur, fræ og ávexti.

Ekki hafa fengist upplýsingar frá gosdrykkjaframleiðendum um innanlandsframleiðslu á gosdrykkjum frá árinu 2014 og því eru ekki birtar upplýsingar um gosdrykkjaframboð fyrir árið 2020.

 

Kjötframboð stendur nánast í stað

Heildarkjötframboðið stendur nánast í stað frá árinu 2014. Lítilsháttar aukning varð í framboði á nauta-, svína- og alífuglakjöti en framboð á kindakjöti minnkaði. Mest var framboðið á alífuglakjöti, 28 kg/íbúa, en þar á eftir kemur svínakjöt 21 kg/íbúa og er lambakjöt í þriðja sæti, 17 kg/íbúa.

Ráðlagt er að takmarka neyslu á rauðu kjöti við 500 g á viku. Sérstaklega skal takmarka neyslu á unnum kjötvörum. Þetta samsvarar tveimur til þremur kjötmáltíðum á viku og smávegis af kjötáleggi.

Ekki hafa verið birtar upplýsingar fyrir fiskframboð síðan 2007, en  ráðlagt er að borða fisk tvisvar til þrisvar sinnum í viku sem aðalrétt og æskilegt er að ein af fiskmáltíðunum sé feitur fiskur.

Feitmetisframboð minnkar heldur

Heildarfeitmetisframboðið hefur minnkað úr 26 kg/íbúa árið 2014 í 24 kg/íbúa 2020. Það varð lítils háttar aukning í framboði á smjöri en framboð á smjörva minnkaði lítillega en mest munar um minna framboð á smjörlíki. Önnur fita og fituminna smjörlíki stóð nokkuð í stað. Ráðlagt er að nota meira af mjúkri (ómettaðri) fitu (jurtaolíum, feitum fiski, lýsi, hnetum, fræjum og avókadó) og minnka á móti hlut harðar fitu í fæðinu.


Upplýsingar um vinnslu fæðuframboðs

Tölurnar sem hér eru birtar eru reiknaðar í kg/íbúa/ár samkvæmt jöfnunni: fæðuframboð = framleiðsla + innflutningur – útflutningur – önnur not (t.d. í dýrafóður). Fæðuframboðið nær í flestum tilfellum til lítið unninnar vöru, t.d. er kjöt gefið upp í heilum skrokkum með beini en í stöku tilfellum er um fullunnar vörur að ræða, t.d. mjólk, mjólkurvörur og smjörlíki. Tölurnar taka ekki tillit til rýrnunar (þess sem ekki er neytt) sem verður við framleiðslu, á lagerum, í verslunum og á heimilum. Upplýsingar fást frá Hagstofu Íslands og framleiðendum.

Skoða nánar:

Fæðuframboð á Íslandi 2020

Framboð iðnaðarframleiddra vara 2020

Hólmfríður Þorgeirsdóttir
og Jóhanna Eyrún Torfadóttir
verkefnisstjórar næringar

<< Til baka