01.12.21

Alþjóðlegi HIV/alnæmisdagurinn 1. desember

Alþjóðlegi HIV/alnæmisdagurinn hefur verið haldinn árlega þann 1. desember frá 1988. Tilgangur dagsins er að vekja athygli á HIV með fræðslu og upplýsingagjöf en einnig að sýna samstöðu með þeim sem smitaðir eru af HIV-veirunni.
HIV er enn mikilvægt lýðheilsumál sem hefur áhrif á heilsu og vellíðan milljóna manna um allan heim. Á síðustu áratugum hafa yfir 2,2 milljónir manna greinst í Evrópu og þar af yfir 100 þúsund á síðasta ári.

Í ár leggur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) áherslu á að binda endi á vaxandi ójöfnuð og skerðingu á heilbrigðisþjónustu HIV-smitaðra einstaklinga í kjölfar COVID-19 faraldursins.

Á árinu 2020 greindist 31 einstaklingur með HIV á Íslandi sem er sami fjöldi og árið 2019. Þar af voru 25 karlar (81%) og sex konur. Flestir sem greindust á árinu eða 18 talsins smituðust vegna kynmaka samkynhneigðra, níu vegna kynmaka gagnkynhneigðra en engir vegna neyslu fíkniefna í æð. Ekki er vitað með vissu um smitleiðir fjögurra einstaklinga. Af þeim sem greindust á árinu höfðu 19 (61%) annað hvort erlent eða óskráð ríkisfang. Tveir karlmenn greindust með alnæmi árið 2020 en engin kona og eitt andlát varð vegna alnæmis.

Frá upphafi alnæmisfaraldursins á Íslandi fyrir tæpum 40 árum hefur nýgengi HIV-sýkinga verið nokkuð stöðugt. Upphaflega var hlutur samkynhneigðra stærstur en síðustu ár hefur um helmingur smita tilheyrt þeim hópi. Samkvæmt skráðum upplýsingum virðast flestir hafa smitast af HIV-veirunni utan Íslands.

Á Íslandi hafa HIV smitaðir almennt gott aðgengi að meðferð og umönnun sem gerir þeim kleift að lifa nánast eðlilegu lífi. Án meðferðar leiðir HIV-smit að lokum til alnæmis sem er banvænn sjúkdómur.

Hvatt er til þess að fólk ræði opinskátt um HIV og fari í HIV-próf á næstu heilsugæslustöð.
Rétt meðferð kemur í veg fyrir að sjúkdómurinn þróist og eykur mjög líkur á góðu lífi.
Rétt meðferð dregur einnig verulega úr líkum á því að smit berist á milli manna.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka