Fréttatilkynning vegna hlutaúttektar á HSS
Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007 ber embætti landlæknis að fylgjast með gæðum og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og stuðla að umbótum.
Hlutaúttekt á legudeild D á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) var unnin að frumkvæði embættis landlæknis. Tilefni úttektarinnar var rannsókn embættisins á kvörtun sem barst síðla árs 2019 og leiddi í ljós alvarlega annmarka á þjónustu. Úttektin var gerð í september 2021 og tók til vettvangsskoðunar, viðtala við starfsfólk, stjórnendur og sjúklinga ásamt skoðunar á ferlum og fyrirliggjandi gögnum um starfsemi, alvarleg atvik, ábendingar, kvartanir og fleira.
Embættið þakkar stjórnendum, starfsfólki og sjúklingum HSS góða samvinnu við úttektina.
Umbótastarf er þegar hafið á HSS og hefur starfsumhverfi legudeildar D á HSS tekið jákvæðum breytingum á síðustu mánuðum. Hins vegar er ljóst að ýmislegt þarf að bæta. Ábendingar embættis landlæknis taka meðal annars til eftirfarandi:
- Fjölga þarf læknum til að stuðla að stöðugri mönnun og samfelldri þjónustu.
- Setja þarf fram skýr markmið og skýra stefnumörkun fyrir starfsemi deildarinnar. Tryggja þarf að búnaður sé í samræmi við það þjónustustig sem ætlað er að uppfylla á deildinni.
- Efla þarf þekkingu og þjálfun starfsmanna til að sinna líknar- og lífslokameðferð samkvæmt nýjustu þekkingu hverju sinni t.d. með námskeiðum og stuðningi frá líknarráðgjafateymi Landspítala.
- Efla þarf innra eftirlit með heilbrigðisþjónustu.
- Efla þarf samvinnu og samskipti við sjúklinga og aðstandendur þeirra og koma upp ferli þar sem ábendingar aðstandenda eru teknar til meðferðar án tafar.
- Styrkja þarf umbóta- og gæðastarf með markvissum hætti með því að setja fram gæðastefnu og tímasetta aðgerðaráætlun og fylgja henni eftir.
Ljóst er að aukin meðvitund og áhersla er á gæði líknar- og lífslokameðferðar eftir atvik sem urðu á deildinni. Starfsfólk er ánægt með þá fræðslu sem það hefur fengið innan stofnunarinnar um líknar- og lífslokameðferð en brýnt er að efla þá þekkingu og þjálfun enn frekar.
Embætti landlæknis mun fylgja framangreindum ábendingum eftir. HSS mun senda embættinu umbótaáætlun í janúar 2022 og framgangsskýrslu í maí 2022 og í nóvember 2022.
Nánari upplýsingar veitir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis.
kjartanh@landlaeknir.is
Alma D. Möller
landlæknir