26.11.21

Breyttar ráðleggingar sóttvarnalæknis vegna ferðalaga

Vegna hraðrar útbreiðslu Omicron afbrigðis SARS-CoV-2 veirunnar (B.1.1.529) í S-Afríku og greiningar afbrigðisins í löndum utan Afríku í kjölfar ferðalaga ræður sóttvarnalæknir íbúum Íslands, óháð bólusetningu gegn COVID-19, frá ferðalögum til tiltekinna landa Afríku að nauðsynjalausu.

Ísland fylgir ferðatakmörkunum á ESB/Schengen-svæðis (sjá nánar á vef ríkislögreglustjóra). Vakin er athygli á því að mælt hefur verið með að flug frá ákveðnum löndum fái ekki að koma til Evrópu vegna útbreiðslu nýja afbrigðisins, sjá frétt frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Mögulegt er að fleiri lönd bætist á listann eftir því sem upplýsingar berast um frekari útbreiðslu. Löndin sem flug verða ekki heimil frá eru:

  • Botsvana
  • Esvatíní
  • Lesótó
  • Mósambík
  • Namibía
  • Suður Afríka
  • Zimbabwe

Bólusettir einstaklingar sem hafa komið dvalið í þessum löndum lengur en sólarhring sl. 14 daga eru hvattir til að gæta vel að sóttvörnum og fara í sýnatöku til PCR greiningar 5 dögum eftir komuna til landsins þótt þeir hafi farið í sýnatöku innan tveggja daga eftir komu. Bólusettir einstaklingar sem koma hér eftir til landsins frá þessum löndum eru hvattir til að fara í PCR sýnatöku við komu, fylgja reglum um sóttkví og endurtaka sýnatöku eftir 5 daga. Einfaldast er þá að skrá sig óbólusettan í forskráningu og fá þá sjálfkrafa strikamerki fyrir PCR við komu og aftur eftir 5 daga, en einnig er hægt að panta sýnatöku skv. tilmælum sóttvarnalæknis í Heilsuveru eða með aðstoð 1700 eins og um einkennasýnatöku væri að ræða. Óbólusettir einstaklingar sæta eftir sem áður sóttkví skv. reglugerð sem má stytta með sýnatöku á 5. degi. 

Sjá ráðleggingar sóttvarnalæknis vegna ferðalaga í heild hér.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka