28.10.21

Ný skýrsla Áhættumatsnefndar um heilsufarsleg áhrif orkudrykkja á framhaldsskólanema

 Nýlegar kannanir sem Rannsóknir & Greining (R&G) framkvæmdi fyrir Áhættumatsnefnd árið 2020 sýna að þriðjungur ungmenna á aldrinum 13-17 ára, sem drekka orkudrykki, fara yfir viðmiðunarmörk Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). Miðað er við  það koffínmagn sem getur haft neikvæð áhrif á svefn (1,4 mg koffín per kg líkamsþyngdar). Um helmingur 18-20 ára ungmenna, sem drekka orkudrykki, fer yfir viðmiðunarmörk fyrir svefn. Aðeins 5-7% ungmenna undir 18 ára aldri og 10% yfir 18 ára aldri, sem drekka aldrei orkudrykki, fara yfir viðmiðunarmörk fyrir koffínneyslu sem hefur neikvæð áhrif á svefn.

Í áhættumatinu sást sterk neikvæð fylgni milli neyslu framhaldsskólanema á orkudrykkjum og svefns.  Þau sem neyta mikils magns orkudrykkja eiga erfiðara með að sofna og  hátt hlutfall þeirra segist sofa lítið (minna en 6 tíma á sólarhring).

Orkudrykkir hafa margir hverjir verið markaðssettir sem eins konar heilsudrykkir. Það gefur ranga mynd í ljósi þeirra neikvæðu áhrifa sem mikil neysla þeirra getur haft á okkur. Svefn er til að mynda afar mikilvægur fyrir alla, ekki síst fyrir ungmenni, sem eru að vaxa og þroskast. Flestir orkudrykkir eru líka súrir drykkir og hafa því glerungseyðandi áhrif. 

Í áhættumati fyrir grunnskólanema, sem kom út haustið 2020 kom fram að um 40-70% ungmenna í 8.-10. bekk hafa fengið orkudrykki gefins í tengslum við íþróttir eða hópastarf samanborið við 10% framhaldsskólanema. Svo virðist sem orkudrykkjum sé markvisst haldið að grunnskólabörnum og þar sem koffín er vanabindandi efni veldur þetta áhyggjum m.t.t. mögulegra neikvæðra heilsuáhrifa til lengri tíma litið. Mikilvægt er því að takmarka aðgengi ungmenna að orkudrykkjum.

Hægt er að lesa nánar um niðurstöður Áhættumatsnefndar hér

Nánari upplýsingar veitir

Jóhanna E. Torfadóttir,
verkefnisstjóri næringar
johanna.e.torfadottir@landlaeknir.is

<< Til baka