21.10.21

Mýrdalshreppur gerist Heilsueflandi samfélag

 Mýrdalshreppur varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þann 8. október sl. þegar Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri og Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis undirrituðu samning þess efnis í íþróttamiðstöðinni í Vík.

Viðburðurinn fór fram í tengslum við árlega menningarhátíð Mýrdælinga, Regnboginn – list í fögru umhverfi. Viðstaddir voru íbúar á öllum aldri, fulltrúar sveitarstjórnar, starfsfólk sveitarfélagsins og nemendur frá leikskólanum Mánalandi og Víkurskóla en báðir þessir skólar eru Heilsueflandi skólar. Rúmlega 40% íbúa sveitarfélagsins eru af erlendum uppruna og endurspeglaðist það á skemmtilegan hátt í tengslum við þennan viðburð sem og aðra viðburði á menningarhátíðinni. Samhliða undirskriftinni var vígður glæsilegur klifurveggur í íþróttamiðstöðinni. Mótvægisstyrkur vegna COVID-19 faraldursins nýttist til efniskaupa en sjálfboðaliðar sáu um hönnun og uppsetningu veggsins.  

Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að vinna með markvissum hætti að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Starf Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla, Heilsueflandi vinnustaða og heilsuefling eldri borgara er mikilvægur liður í starfi Heilsueflandi samfélags. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna sveitarfélög meðal annars að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Mýrdalshreppur er 36. sveitarfélagið sem gerist Heilsueflandi samfélag og búa nú um 93,8% landsmanna í slíku samfélagi.

Nánar um Heilsueflandi samfélag

Nánar um lýðheilsuvísa

Nánar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

 

Gígja Gunnarsdóttir

verkefnastjóri Heilsueflandi samfélags

<< Til baka