07.10.21

Athugun á tilkynningum um röskun á tíðahring í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19

Þann 6. ágúst sl. tilkynntu Lyfjastofnun og embætti landlæknis um að ákveðið hafi verið að kalla til óháða aðila til að rannsaka gaumgæfilega þau tilfelli sem varða röskun á tíðahring kvenna í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19 og hafa verið tilkynnt til Lyfjastofnunar.

Markmið rannsóknarinnar var að leita skýringa á orsökum og veita þeim konum sem um ræðir stuðning og viðeigandi ráð. Nefndin hefur nýverið skilað niðurstöðum til Lyfjastofnunar og embættis landlæknis.

Ítarlega er fjallað um niðurstöður nefndarinnar á heimasíðu Lyfjastofnunar.

Í meginatriðum er niðurstaða nefndarinnar að í nokkrum tilvikum er varðar blæðingar í kringum tíðahvörf og hluta tilvika óreglulegra/langvarandi blæðinga sé ekki með óyggjandi hætti hægt að útiloka tengsl við bólusetningu. Af þeim voru tvær tilkynningar tengdar blæðingum í kringum tíðahvörf og fimm vörðuðu óreglulegar og/eða langvarandi blæðingar.

Nefndin áréttar að í öllum tilvikum þyrfti frekari athugun og rannsókn læknis að eiga sér stað til að útiloka þekktar ástæður slíkra einkenna. Þá sé mjög erfitt að meta slík tengsl þar sem ekki liggja fyrir faraldsfræðilegar upplýsingar um sambærileg einkenni í þýðinu. Nefndin telur ólíklegt að osakasamhengi sé á milli þessara fimm tilkynninga um alvarlegar aukaverkanir og bólusetningar. Þá telur nefndin  tengsl á milli bólusetningar og fósturláta hér á landi ólíkleg.

Sjá ítarlega umfjöllun á vef Lyfjastofnunar.

Þórólfur Guðnason
sóttvarnalæknir

Alma D. Möller
landlæknir

 

 

<< Til baka