01.10.21

Vitundarvakningu um mikilvægi svefns hleypt af stokkunum

Vitundarvakning um mikilvægi svefns til þess að stuðla að bættum svefni Íslendinga var hleypt af stokkunum í dag. Af því tilefni fór fram málþing í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur undir yfirskriftinni Sofum betur.

Sjá streymi frá málþinginu.

 Alma D. Möller landlæknir kynnti vitundarvakninguna ásamt því að fara yfir mikilvægi svefns fyrir heilsu og líðan. Þeir sem tileinka sér góðar svefnvenjur eru m.a. hamingjusamari, hæfari til að takast á við streitu og kvíða og eiga auðveldara með að takast á við daglegt líf.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, steig næstur á svið. Í sínu erindi fjallaði hann um mikilvægi þess að stíga skref í átt að bættum svefnvenjum Íslendinga. Í lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar er áhersla á svefn þar sem farið verður m.a. af stað með tilraunaverkefni í grunnskólum borgarinnar. Hann lagði áherslu á að nýta niðurstöður rannsókna við ákvarðanir um áframhaldandi aðgerðir.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu kynnti niðurstöður rannsókna þeirra í skólum landsins. Þar kom m.a. fram að þriðjungur barna í 5.-7. bekk grunnskóla hafa átt erfitt með að sofa og hátt hlutfall barna í 8.-10. bekk grunnskóla sofa of lítið. Eftir því sem börn verða eldri því minna sofa þau og um 60% nemenda í framhaldsskólum landsins sofa 7 klst. eða minna.


Frá vinstri: Margrét Lilja Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Alma D. Möller landlæknir og Erla Björnsdóttir svefnsérfræðingur og framkvæmdastjóri Betri svefns.

Setjum svefninn í forgang

Erla Björnsdóttir svefnsérfræðingur og framkvæmdastjóri Betri svefns sagði frá fræðsluátaki sem hófst núna í dag þar sem markmiðið er að hvetja fólk til að huga að góðum nætursvefni, en það er ein af aðgerðum vitundarvakningarinnar. Út októbermánuð verða staðreyndir, ráð og áskoranir varðandi svefn áberandi á samfélagsmiðlum. Fólk er hvatt til þess að setja svefninn í forgang þar sem hann er mikilvægur fyrir allt sem við gerum. Hægt er að fylgjast með á samfélagsmiðlum undir merkinu #sofumbetur

 Fundarstjóri var Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis og stjórnaði hún umræðum í lokin þar sem breyting klukkunnar á Íslandi, opnunartími skemmtistaða og fleira var rætt. Mikill samhljómur var meðal framsögumanna um mikilvægi svefns fyrir líkamlega og andlega heilsu og að leita leiða til þess að stuðla að betri svefni meðal almennings.

Vitundarvakning um mikilvægi svefns til að stuðla að bættum svefni Íslendinga er stýrt af embætti landlæknis og unnin í samstarfi við Betri svefn, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Rannsóknir og greiningu, Landspítala háskólasjúkrahús, Svefnsetur Háskólans í Reykjavík, Reykjavíkurborg og Háskólann í Reykjavík.

Aðgerðaráætlun vitundarvakningarinnar má nálgast hér.

<< Til baka