29.09.21

Ársskýrsla um sýklalyfjanotkun hjá mönnum og dýrum fyrir árið 2020

Ársskýrsla um sýklalyfjanotkun hjá mönnum og dýrum fyrir árið 2020 er nú gefin út í níunda sinn. Í ársskýrslum um sýklalyfjanotkun er venjulega einnig greint frá faraldsfræði ónæmra baktería en þar sem einhver bið verður á að endanlegar upplýsingar um ónæmi berist var ákveðið að birta ársskýrsluna í tveimur áföngum: Í þessari skýrslu eru birtar upplýsingar um sýklalyfjanotkun ársins 2020 en upplýsingum um sýklalyfjaónæmar bakteríur á árinu 2020 verður bætt við síðar.

Þegar heildarsala sýklalyfja á Íslandi er mæld sem daglegir lyfjaskammtar á einstakling, eða DID (DDD/1000 íbúa/dag), sést að salan hefur dregist saman undanfarin ár. Salan var í kringum 24 DID árið 2017 samanborið við um 16 DID árið 2020, sem nemur um 30% lækkun á fjórum árum. Mest minnkaði salan á milli áranna 2019 og 2020 eða úr 19,4 DID í 16, 2 DID (16,5%). Salan er þó enn töluvert hærri hérlendis en á öðrum Norðurlöndum. Sala sýklalyfja fyrir dýr, mæld í tonnum, jókst hins vegar um 5,7% á árinu 2020 en notkunin hérlendis hefur löngum verið ein sú minnsta Evrópu.

Þó sala sýklalyfja til manna hafi minnkað í öllum sýklalyfjaflokkum munar mestu um minnkandi notkun beta-laktam lyfja, sérstaklega hjá aldurshópnum 0–4 ára. Ástæður fyrir minnkandi notkun sýklalyfja hjá mönnum hér á landi á árinu 2020 geta verið fjölmargar. Á árinu 2020 voru viðamiklar samfélagslegar og einstaklingsbundnar sóttvarnaaðgerðir í samfélaginu vegna COVID-19. Þessar aðgerðir leiddu til fækkunar á sýkingum almennt, sérstaklega öndunarfærasýkingum, sem vafalaust leiddi til minni notkunar sýklalyfja. Einnig hefur á undanförnum árum verið viðhafður áróður um skynsamlega notkun sýklalyfja.

Á næstu árum er áætlað að auka frekar þverfaglega vinnu sem miðar að því að lágmarka útbreiðslu sýklalyfjaónæmis (Ein Heilsa). Einn mikilvægasti þáttur í þeirri vinnu er að stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja bæði hjá mönnum og dýrum. Mikið starf er óunnið á þessum vettvangi og mikilvægt að haldið verði áfram á þeirri braut sem nú hefur verið mörkuð.

Sjá ársskýrslu um Sýklalyfjanotkun hjá mönnum og dýrum fyrir árið 2020

 

Anna Margrét Halldórsdóttir
yfirlæknir á sóttvarnasviði

 

<< Til baka