13.09.21

Bólusetning gegn árlegri inflúensu veturinn 2021-2022

Inflúensubóluefni verður tilbúið til afhendingar frá dreifingaraðila 15. október nk. Bóluefni sem notað verður í bólusetningum veturinn 2021-2022 samkvæmt samningum sóttvarna­læknis við Vistor er:

  • Vaxigrip Tetra – 95.000 skammtar skv. samningi við útboð 2019 og viðaukasamningum 2021.

Í fyrra voru notaðir um 84.000 skammtar af inflúensubóluefni hér á landi og verður framboð því meira í ár en í fyrra.

Í ár verður dreifingu forgangsraðað til heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila í október en aðrir sem fá úthlutað bóluefni fá það væntanlega í nóvember, þ.m.t. aðilar sem sinna vinnustaðabólusetningum.

Dreifing bóluefnis til aðila sem sinna bólusetningum miðast við það magn sem áætlað var í könnun sóttvarnalæknis nú í sumar nema annað hafi komið fram í samskiptum sóttvarnalæknis við ábyrgðaraðila bólusetninga.

Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar:

  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
  • Barnshafandi konur.       
  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.

Sjá nánar Dreifibréf nr. 1/2021 um bólusetningu gegn árlegri inflúensu.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka