10.09.21

Við erum öll sjálfsvígsforvarnir

Sjónum beint að stuðningi við eftirlifendur

Á ári hverju falla átta hundruð þúsund manns fyrir eigin hendi í heiminum. Síðastliðinn áratug hefur árlegur fjöldi sjálfsvíga hér á landi verið 39 að meðaltali. Þrátt fyrir opinberar áætlanir og markmið stjórnvalda um að koma í veg fyrir sjálfsvíg, verðum við að vera minnug þess að árangri verður aldrei náð nema með þátttöku alls samfélagsins.

Í tilefni af alþjóðlegum forvarnadegi sjálfsvíga, 10. september, er í ár sjónum beint sérstaklega að þeim hluta sjálfsvígsforvarna sem felur í sér stuðning í kjölfar sjálfsvígs. Missir ástvinar í sjálfsvígi er harmleikur fyrir þá sem næst standa. Auk þeirra  er fjöldi fólks sem er verulega slegið en talið er að í kringum hvert sjálfsvíg séu allt að 100 manns sem hlúa þarf að. Í kjölfar sjálfsvígs þarf að takst á við flókna sorg og erfiðar tilfinningar eins og sektarkennd, skömm og reiði. Til þess að komast í gegnum áfallið og sorgina þarf bæði stuðning nærumhverfis, ættingja og vina en einnig hjálp frá fagfólki. 

Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum Íslandi

Hér á landi er unnið markvisst samkvæmt aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum. Áætlunin telur yfir 50 aðgerðir í sex liðum og nær bæði til almennra samfélagslegra aðgerða eins og geðræktar og áfengis- og vímuefnaforvarna, en einnig til sértækra aðgerða sem beinast að áhættuhópum og takmörkunar aðgengis að hættulegum efnum og aðstæðum.

Á næstu misserum mun embætti landlæknis vinna að því, í samvinnu við m.a sveitarfélög, lögreglu, skóla, vinnustaði og heilbrigðisstofnanir að byggja upp vinnulag og ferla sem ætlað er að grípa og styðja aðstandendur sem missa í sjálfsvígi og tryggja þeim viðeigandi stuðning. Þetta er stórt verkefni sem mun taka tíma en með okkar góðu innviði mun það takast.

Vernandi þættir og áhættuþættir sjálfsvíga myndast og þróast yfir langan tíma í lífi hvers einstaklings, því verðum við að vera meðvituð um fækkun sjálfsvíga er langtíma verkefni. En með því að vekja athygli á vandanum, með því að draga úr þeirri skömm sem fylgir geðrænum vandamálum og með því að eiga heiðarlegt samtal um tilfinningar okkar, því fyrr munum við sjá breytingu til hins betra.

Vöndum orðræðuna

Við getum öll lagt okkar af mörkum. Ein leið er að tileinka okkur og stuðla að ábyrgri orðræðu um sjálfsvíg bæði í ræðu og riti.

Ónærgætið orðaval er til þess fallið að viðhalda skömm, sektarkennd og vanlíðan meðal aðstandenda ásamt því að ýta undir fordóma gagnvart andlegum veikindum; aðgát skal höfð í nærveru sálar. Við viljum nota orðið sjálfsvíg í  stað þess að tala um sjálfsmorð sem aðstandendur hafa bent á komi illa við þá. Þeir hafa líka bent á að heppilegra er að tala um að missa í  sjálfsvígi eins og um væri að ræða slys; fólk deyr í slysi. Varast skal að nota orðið fremja sem getur vísað í glæpsamlegt athæfi, sbr. að fremja glæp. Fleiri dæmi um neikvæða orðræðu sem getur komið illa við fólk í sorg er þegar talað er um að einhver hafi drepið sig eða kálað sér. Betra er að segja að einstaklingur hafi fallið fyrir eigin hendi en fallið vísar til þess hve erfitt er að sporna við sjálfsvígi.

Það er alltaf hjálp að fá

Munum öll að víða er hjálp að fá fyrir þá sem líður illa og glíma við sjálfsvígshugsanir. Félagasamtök á borð við Pieta og Geðhjálp geta veitt mikilvægan stuðning og er hjálparsími Pieta, s. 552-2218 alltaf opinn, sömuleiðis Hjálparsími Rauða krossins, 1717 og netspjallið 1717.is. Sorgarmiðstöð, s. 551 4141 sinnir stuðningi við aðstandendur og Heilsugæslan getur jafnframt veitt aðstoð. Hægt að finna gagnlegar upplýsingar á heimasíðu embættis landlæknis, landlaeknir.is.

 Alma D. Möller
landlæknir

<< Til baka