23.06.21

Fyrstu 1000 dagar barnsins. Skýrsla með niðurstöðum vinnustofu og samráðsfundar

Embætti landlæknis leiðir umfangsmikið norrænt samstarfsverkefni um velferð og vellíðan barna og foreldra þeirra við upphaf ævinnar. Verkefnið er eitt af formennskuverkefnum Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og stendur til ársins 2022. Það beinist einkum að því að skoða núverandi stöðu og tækifæri til umbóta í meðgönguvernd, ung- og smábarnavernd, leikskólum og dagvistun til að styðja sem best við geðheilsu ungra barna.

Á síðasta ári kom út viðamikil skýrsla í tengslum við verkefnið þar sem staða þessara mála innan Íslands, Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands var kortlögð og borin saman milli landa. Nú hefur bæst við önnur skýrsla þar sem farið var yfir rannsóknargrunn úrræða og matstækja sem nýtt eru á Norðurlöndunum til að meta og efla geðheilsu og velferð ungra barna og foreldra þeirra. Skýrslan birtist á vefnum www.norden.org og má finna hér.

Einnig er komin út samantekt af niðurstöðum vinnustofu og samráðsfundar sem haldin voru í tengslum við verkefnið hér á landi fyrr á þessu ári. Þar komu saman innlendir sérfræðingar, hagsmunaaðilar og annað áhugafólk um fyrstu æviár barna til að ræða niðurstöður verkefnisins og setja fram tillögur að umbótum. Samantektina má finna hér.

Sigrún Daníelsdóttir
verkefnastjóri geðræktar
Netfang: sigrun@landlaeknir.is

Jenný Ingudóttir
verkefnastjóri ofbeldisforvarna
og heilsueflandi leikskóla
Netfang: jenny@landlaeknir.is

<< Til baka