15.06.21

Úttekt embættis landlæknis á hópsýkingu COVID-19 á Landakoti

Embætti landlæknis hefur birt úttekt sína á hópsmiti COVID-19 á Landakoti í október 2020. Atvikið er eitt það alvarlegasta sem komið hefur upp í heilbrigðisþjónustu hér á landi; smit komu upp hjá 99 starfsmönnum og sjúklingum spítalans, 13 sjúklingar á Landakoti létust. Athugun embættisins einskorðast við hópsýkinguna á Landakoti en ljóst er að smit dreifðust á aðrar heilbrigðisstofnanir, þar á meðal Reykjalund og Sólvelli. Heildarfjöldi smitaðra var 150 og andlát voru 15.

Atvikið var tilkynnt til embættis landlæknis í samræmi við lög um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Vinna embættisins í tengslum við atvikið grundvallast á 10. gr. sömu laga þar sem markmiðið er að finna á atburðinum skýringar og tryggja eins og kostur er að slík atvik eigi sér ekki aftur stað. Þannig er vinnu embættisins ekki lokið með útgáfu skýrslu um hópsmitið, heldur hyggst embættið fylgja ábendingum sínum eftir.

Heimsfaraldur COVID-19 verður ekki síðasti heimsfaraldurinn, því er mikilvægt að huga að öllum þeim atriðum sem bæta viðbúnað og viðbrögð í heilbrigðiskerfinu.

Ástæður alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu má oftast nær rekja til ýmissa samverkandi þátta og er það niðurstaða embættisins að sú hafi verið raunin í tilfelli hópsýkingar á Landakoti. Einkum eru það eftirfarandi kerfislægir orsakaþættir sem skiptu sköpum: ófullkomin hólfaskipting, ófullnægjandi fræðsla og þjálfun starfsmanna sem og eftirlit með fylgni við leiðbeiningar, skortur á sýnatökum meðal sjúklinga og starfsfólks, ófullnægjandi húsakostur og loftræsting auk þess sem viðbrögð í upphafi hópsmits hefðu mátt vera skarpari.

Þegar litið er til baka er ljóst að ýmislegt hefði betur mátt fara bæði hvað varðar undirbúning og viðbrögð. Því er mikilvægt að allir sem að málum koma vinni að úrbótum sem nýtast munu til framtíðar. Þá er augljóst að slíkur atburður hefur mikil áhrif á starfsmenn og stjórnendur sem næstir stóðu og mikilvægt að þeir fái viðeigandi stuðning.

Alma D. Möller
landlæknir

 

Nánari upplýsingar veitir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í netfanginu kjartanh@landlaeknir.is.

<< Til baka