08.06.21

Kynning á lýðheilsuvísum 2021 eftir heilbrigðisumdæmum

Lýðheilsuvísar 2021 eftir heilbrigðisumdæmum verða kynntir miðvikudaginn 16. júní nk. frá kl. 10:00-11:30. Kynningarfundurinn verður eingöngu rafrænn að þessu sinni. Hlekkur á streymi verður sendur út síðar.

Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar. Þeir eru settir fram til þess að veita yfirsýn og auðvelda heilbrigðisþjónustu og sveitarfélögum að greina stöðuna í eigin umdæmi þannig að vinna megi með markvissum hætti að því að bæta heilsu og líðan íbúanna. Við val á lýðheilsuvísum er sjónum einkum beint að þeim þáttum sem hafa áhrif á heilsu og líðan sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna. Þá er einnig leitast við að velja þá þætti í sjúkdómabyrði sem mikilvægt er að heilbrigðisþjónusta hvers heilbrigðisumdæmis geri sér grein fyrir og bregðist við.

Sú hefð hefur skapast að fara á milli heilbrigðisumdæma með kynninguna á lýðheilsuvísum og að þessu sinni er komið að heilbrigðisumdæmi Vestfjarða. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs og Sigríður Haraldsd. Elínardóttir sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá embætti landlæknis verða með erindi á fundinum ásamt Gylfa Ólafssyni forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Nánari dagskrá verður auglýst síðar.

Í mælaborði lýðheilsu eru birtar tölulegar upplýsingar er varða lýðheilsu í landinu með gagnvirkum og myndrænum hætti þar sem lögð er áhersla á skilgreinda lýðheilsuvísa. Þá eru upplýsingar um stöðu valdra vísa einnig uppfærðar mánaðarlega í Lýðheilsuvakt embættis landlæknis.

Frekari upplýsingar varðandi viðburðinn er að finna hér.

Nánari upplýsingar veita:

Sigríður Haraldsd. Elínardóttir,
sviðsstjóri heilbrigðisupplýsingasviðs
netfang: shara@landlaeknir.is

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir,
sviðsstjóri lýðheilsusviðs
netfang: dora@landlaeknir.is

<< Til baka