31.05.21

Alþjóðlegur dagur án tóbaks 31. maí 2021

Sjá stærri mynd

Í tilefni af Degi án tóbaks leggur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) áherslu á að hvetja þjóðir og einstaklinga til að hætta tóbaksnotkun.

,,Það látast 8 milljónir manns á hverju ári vegna reykinga, en ef það er þörf á frekari hvatningu til að hætta að reykja þá ætti heimsfaraldurinn COVID-19 að vera það''
- Dr Tedros Adhanom Ghebreyesus forstjóri WHO

Mikilvægt er að lönd styðji við árangursríkar tóbaksvarnir og að einstaklingar nýti sér þá aðstoð sem er í boði. Heimsfaraldurinn COVID-19 hefur leitt til þess að milljónir manns um allan heim segjast vilja hætta að nota tóbak.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur birt niðurstöður sem sýna að þeir sem reykja eru í verri stöðu fái þeir COVID-19. Tóbaksnotkun er einn mesti áhættuþátturinn í að þróa með sér sjúkdóma á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, öndunarfærasjúkóma og sykursýki og eiga þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma hættu á að fá alvarlegri einkenni COVID-19.

Það er mikil áskorun sem felst í því að hætta að nota tóbak, ekki síst í því ástandi sem heimsfaraldurinn færir okkur með auknu álagi á einstaklinga og samfélagið í heild. Það er mjög jákvætt að margir vilji hætta að nota tóbak og það er til mikils að vinna. Fyrir þann sem reykir er fátt sem hann getur gert sem er betra fyrir heilsuna en að hætta að reykja auk þess sem því fylgir mikill fjárhagslegur ávinningur.

Í ár er athyglinni hér á landi beint að þeirri aðstoð sem er í boði fyrir þá sem vilja hætta að nota tóbak og aðrar nikótínvörur. Stuðningur frá fjölskyldu og vinum getur gert gæfumuninn þegar tekist er á við nikótínfíkn. Hlutverk fjölskyldu og vina er að styðja við þann sem er að takast á við nikótínfíkn og getur sá stuðningur verið ólíkur eftir áhugahvöt þess sem vill hætta tóbaksnotkun og öðrum nikótínvörum s.s. rafrettum og nikótínpúðum.

Sá sem er að fást við nikótínfíkn fer í gegnum ákveðin þrep í hegðunarbreytingu. Þrepin eru fimm og lýsa ólíkri aðstöðu og viðhorfum og einnig hvað getur gagnast á hverju þrepi fyrir sig. Í hverju þrepi notar hver og einn mismunandi aðferðir við að færa sig yfir á næsta þrep. Stuðningur fjölskyldu og vina getur falist í almennri umhyggju og yfir í það að vera meira hvetjandi eftir því á hvaða þrepi sá sem er að hætta að nota tóbak er staddur.

Hægt er að fræðast nánar um fimm þrepa kerfi hegðunarbreytinga til að venja sig af tóbaks- og nikótínnotkun á vefnum www.dagurantobaks.is þar sem hverju þrepi fyrir sig er lýst og ólíkum viðhorfum og áhugahvöt þess sem þar er staddur. Einnig er hægt að fá nytsamlegar upplýsingar og aðstoð á heilsuvera.is

 

Viðar Jensson
verkefnisstjóri tóbaksvarna

<< Til baka