24.02.21

Hlutaúttekt á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands - Fréttatilkynning

Embætti landlæknis hefur birt skýrslu um hlutaúttekt sem gerð var á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands (LKÍ).

Tilefni úttektarinnar var tilkynning LKÍ um alvarlegt atvik þar sem leghálssýni hafði verið ranglega greint eðlilegt og að LKÍ taldi í kjölfarið þörf fyrir að endurskoða fjölda valinna einskoðaðra leghálssýna frá árunum 2017-2019. Embætti landlæknis ákvað því að samhliða rannsókn á atvikinu færi fram úttekt á skimunum fyrir leghálskrabbameinum.

Í úttektinni er sjónum sérstaklega beint að þeim kerfislægu þáttum sem gætu hafa haft áhrif, enda eru það oftast samverkandi þættir, mannlegir og kerfislægir, sem leiða til alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu.

Niðurstöður úttektarinnar eru einkum þær að ákveðna hluta innra gæðaeftirlits hefði verið hægt að nýta betur til að hafa yfirsýn á gæði frumugreininga í heild.

Vegna þeirra breytinga sem komu til framkvæmda um síðastliðin áramót á lýðgrundaðri skimun fyrir krabbameini hér á landi er LKÍ ekki lengur starfrækt og hefur embætti landlæknis nú fengið aukið hlutverk á sviði eftirlits með skimunum fyrir krabbameinum. Þar á meðal er ábyrgð á því að sett verði árangursviðmið og gæðavísar og að gæðakröfur verði skilgreindar.

Úttekt embættisins byggði á gagnaöflun og viðtölum, og er stjórnendum og starfsfólki Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands þakkað fyrir gott samstarf.

Einnig fylgja þakkir til Krabbameinsfélagsins fyrir frumkvöðlastarf og framlag þess til skimana á Íslandi.

Hlutaúttekt á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands (PDF)

 

Nánari upplýsingar veitir

Kjartan Hreinn Njálsson
aðstoðarmaður landlæknis
Netfang: kjartanh@landlaeknir.is

<< Til baka