26.01.21

Samstarf embættis landlæknis og Háskóla Íslands við verkefnið Heilsubrunn

 Þann 25. janúar 2021 var undirritaður samningur á milli Háskóla Íslands og embættis landlæknis um samstarf við verkefnið Heilsubrunn.

Heilsubrunnur er verkefni á vegum Heilbrigðisvísindastofnunar Háskóla Íslands. Markmið hans er að auðvelda fræðimönnum aðgang að heilbrigðisupplýsingum sem þegar eru til og nota má við vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Til þess að svo megi verða gerir Heilsubrunnur samninga við einstaka ábyrgðaraðila gagna og er samningurinn við embætti landlæknis sá fyrsti sinnar tegundar.

 Þátttaka embættisins felst í því að miðla tilteknum dulkóðuðum gögnum úr gagnagrunnum, sem haldnir eru skv. lögum og eru á ábyrgð landlæknis og sóttvarnalæknis, yfir í sérstaka fyrirspurnargrunna sem Háskóli Íslands mun reka. Í gegnum Heilsubrunn geta síðan rannsakendur gert tölfræðifyrirspurnir sem nýtast við undirbúning vísindarannsókna, svokallaðar fýsileikakannanir.

Dulkóðuð gögn úr gagnagrunnum sem haldnir eru á ábyrgð landlæknis og sóttvarnalæknis eru þegar nýtt til vísindarannsókna í miklum mæli. Þátttaka embættis landlæknis í verkefninu Heilsubrunni er enn eitt skrefið til að hvetja til nýtingar gagnanna og auðvelda aðgang að þeim enda ber landlækni að stuðla að rannsóknum á starfssviði embættisins skv. 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

Ljósmyndari Kristinn Ingvarsson.

<< Til baka