23.12.20

Nýtt afbrigði SARS-CoV-2 sem veldur COVID-19 í Bretlandi

Síðustu vikur hefur orðið mikil aukning á COVID-19 tilfellum í Bretlandi, sérstaklega í Suð-Austur Englandi, sem leiddi til ítarlegri rýni í faraldsfræði sjúkdómsins og rannsókna á veirunni þar í landi. Afbrigðið er nefnt SARS-CoV-2 VUI 202012/01 (afbrigði í rannsókn, e. variant under investigation, ár 2020, mánuður 12, afbrigði 01). Þetta nýja afbrigði kemur fram á sama tíma og fólk hefur verið að koma meira saman á haustmánuðum en nýja afbrigðið varð fyrst vart í Englandi í seinni hluta september. Aukningin varð á sama tíma og gripið hafði verið til harðari aðgerða og þess vegna var farið að rýna í hugsanlegar ástæður. Raðgreining á erfðaefni veirunnar leiddi í ljós að stór hluti tilfella var af völdum nýs afbrigðis veirunnar. Nýja afbrigðið einkennist af óvenjumörgum stökkbreytingum á gaddapróteini veirunnar (e. spike protein) auk annarra stökkbreytinga. Þó viðbúið sé og vitað að endurteknar stökkbreytingar verði á veirum sem leiði til nýrra afbrigða, gefa fyrstu rannsóknir í Bretlandi til kynna að þetta tiltekna afbrigði smitist frekar en fyrri afbrigði. Að smitstuðullinn (R) sé 0,4 hærri og dreifing veirunnar 70% meiri en fyrri afbrigða. Þetta er byggt á faraldsfræðigögnum en ekki rannsóknum á veirunni á rannsóknarstofu. Slíkar rannsóknir eru hins vegar í gangi og vænta má niðurstöðu eftir 2-3 vikur.

Það eru engar vísbendingar um meiri veikindi af völdum þessa nýja afbrigðis eða að afbrigðið leggist frekar á ákveðna hópa en aðra. Hins vegar er þetta allt enn í skoðun. Sérstaklega er verið að athuga hvort börn smitist frekar með þessu afbrigði en þeim fyrri. Sama má segja um hvort áhyggjur þurfi að hafa af virkni bóluefnis á þetta nýja afbrigði sem þykir ólíklegt en sérstakar rannsóknir á því eru í gangi. Hvort hætta sé á endursmiti hjá þeim sem áður hafa fengið COVID-19 er einnig í skoðun en þó einstök tilfelli hafi komið upp þar sem slíkt var hugsanlegt er það ekki staðfest.

Eitt tilfelli af þessu nýja afbrigði hefur greinst hérlendis á landamærunum hjá ferðamanni sem kom frá Bretlandi. Sá var einkennalaus og fór í einangrun í 2 vikur og engin önnur tilfelli hafa greinst síðan. Öll sýni tekin hér á landi, bæði innanlands og á landmærum, eru raðgreind. Nokkur tilfelli af þessu nýja afbrigði hafa einnig greinst í Danmörku, Hollandi, Belgíu, Ítalíu og Ástralíu. Lönd í Evrópu eru að skiptast á upplýsingum um greiningu og rannsóknum á þessu nýja afbrigði. Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) mæla ekki með sérstökum ferðatakmörkunum gagnvart Bretlandi þó ýmis lönd hafi gripið til slíks a.m.k. tímabundið. Hins vegar er mælt með áframhaldandi víðtækum sýnatökum og raðgreiningu á veirunni, einangrun sýktra og sóttkví tengdra einstaklinga, eins og áður, til að minnka dreifingu á smiti. Þá er mælt með áframhaldandi einstaklingsbundnum sóttvörnum og takmörkunum á samkomum í hverju landi og lagst gegn ónauðsynlegum ferðalögum milli landa.

Engar frekari aðgerðir eru fyrirhugaðar á landmærum hérlendis vegna þessa nýja veiruafbrigðis hvað varðar ferðalanga frá Bretlandi sérstaklega. Ástæða þess er að hér eru viðhafðar árangursríkar skimanir á landamærunum sem lágmarka áhættuna á því að veiran komist inn í landið. Áfram þurfa allir komufarþegar að velja 2 sýnatökur og 5-6 daga sóttkví eða sóttkví í 14 daga en það fyrirkomulag hefur reynst vel.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka