04.12.20

Ný skýrsla um námsefni og heildræna nálgun til að efla félags- og tilfinningafærni í skólum

Embætti landlæknis hefur gefið út skýrslu um námsefni og heildarskólanálgun (e. whole-school approach) til að efla jákvæða hegðun og félags- og tilfinningafærni barna og ungmenna í skólum. Skýrslan byggir á niðurstöðum kannana sem lagðar hafa verið fyrir í leik-, grunn- og framhaldsskólum á undanförnum árum en til þessa hafa ekki verið teknar saman heildstæðar upplýsingar um hvaða efni eða nálgun er helst nýtt í þessum tilgangi í skólastarfi á Íslandi né hversu vel það er stutt rannsóknum.

Niðurstöður sýna að mikill munur er á innihaldi og gæðum þess námsefnis sem stendur skólum til boða og hversu vel námsefni og heildræn nálgun, sem nýtt er til að styðja við jákvæða hegðun og félags- og tilfinningafærni í skólastarfi, er stutt rannsóknum. Sumt af því sem stendur skólum til boða á þessu sviði hefur verið vel rannsakað og reynst stuðla að þeirri færni eða aðstæðum sem stefnt er að. Annað, sem hefur jafnvel náð mikilli útbreiðslu í skólakerfinu, byggir á mun veikari grunni. Ennfremur er margt af því námsefni sem skólum stendur til boða í dag komið vel til ára sinna og þyrfti því að uppfæra eða huga að útgáfu nýs efnis. Í þeim efnum er skynsamlegt að líta ekki einungis til þess námsefnis sem þegar hefur verið gefið út hér á landi heldur einnig efnis sem hefur verið í þróun og gefið góða raun erlendis þótt það hafi ekki staðið íslenskum skólum til boða til þessa.

Í skýrslunni eru settar fram ábendingar varðandi áframhaldandi þróun málaflokksins með það fyrir sjónum að bæta aðgengi að gagnreyndu námsefni og heildrænni nálgun til að efla jákvæða hegðun og félags- og tilfinningafærni barna og ungmenna í skólastarfi á Íslandi. Rannsóknir sýna að markviss kennsla og heildræn nálgun á þessu sviði hefur jákvæð áhrif á hegðun, líðan og námsgengi barna og ungmenna en til þess að árangur náist er mikilvægt að byggt sé á gagnreyndum aðferðum.

Nánari upplýsingar veitir

Sigrún Daníelsdóttir, 
verkefnisstjóri geðræktar
sigrun@landlaeknir.is

<< Til baka