Endurskoðun opinberra ráðlegginga um hreyfingu að hefjast
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur gefið út nýjar ráðleggingar um hreyfingu og kyrrsetu. Ráðleggingarnar eru uppfærð útgáfa fyrri ráðlegginga WHO um hreyfingu frá árinu 2010. Í fréttatilkynningu WHO í tilefni af útgáfunni er m.a. vitnað í framkvæmdastjóra WHO, Dr Tedros Adhanom Ghebreyesus: ,,Regluleg hreyfing er nauðsynleg fyrir heilsu og vellíðan – hún bætir árum við lífið og lífi við árin. Öll hreyfing telur, sérstaklega núna þegar við tökumst á við takmarkanir vegna COVID-19 faraldursins. Við þurfum öll að hreyfa okkur daglega – með öruggum og skapandi hætti".
Í kjölfar útgáfu ráðlegginga WHO hefur embætti landlæknis sett á fót faghóp um endurskoðun opinberra ráðlegginga um hreyfingu fyrir Ísland. Núgildandi ráðleggingar eru frá árinu 2008 og munu uppfærðar ráðleggingar að óbreyttu koma út árið 2021.
Í nýju staðreyndablaði Evrópuskrifstofu WHO um hreyfingu á Íslandi, sem embætti landlæknis vann í samráði við hagaðila, má finna margvíslegar upplýsingar um hreyfingu á Íslandi. Staðreyndablöð annarra Evrópuþjóða eru einnig aðgengileg á vef WHO.
- Nánar um nýjar ráðleggingar WHO um hreyfingu og kyrrsetu
- Staðreyndablað WHO um hreyfingu á Íslandi 2019 (2020) og staðreyndablöð annarra Evrópuþjóða um hreyfingu.
- Heilræði um hreyfingu á tímum COVID-19
- Um hreyfingu á Heilsuvera.is
Gígja Gunnarsdóttir,
verkefnisstjóri hreyfingar,
Netfang: gigja@landlaeknir.is