07.10.20

Forvarnardagurinn er í dag

Sjá stærri mynd

Forvarnardagurinn er haldinn í fimmtánda skipti í dag og eru viðburðir tengdir honum í flestum grunn- og framhaldsskólum landsins og þá er sjónum sérstaklega beint að unglingum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla.

Á Forvarnardeginum ræða nemendur um hugmyndir sínar um íþrótta- og tómstundastarf og fjölskyldulíf, sem eru verndandi þættir gegn notkun vímuefna. Þau vinna í skólunum og skrá hugmyndir sínar; síðan er svörum safnað saman til að finna samnefnara í hugmyndum þeirra. Skólarnir vinna í útfærslu dagsins miðað við þær aðstæður sem uppi eru í samfélaginu vegna heimsfarsóttar.

Embætti landlæknis stendur að deginum í samstarfi við embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Bandalags íslenskra skáta, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greiningu, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Samfés og Heimili og skóla.  

Mikið af efni Forvarnardagsins hefur verið endurnýjað og mun vitundarvakning á samfélagsmiðlum bera því vitni næstu vikurnar. Vefsíðan www.forvarnardagur.is hefur verið sett í loftið með ýmsum upplýsingum og kennsluefni fyrir skólana til að nýta sér sem eru inni á læstum svæðum.

Þá geta nemendur svarað spurningu á forsíðu vefsíðunnar og dregið verður úr réttum svörum þann 30. október næstkomandi og verða verðlaun veitt fyrir bestu svörin. Síðar á árinu mun forseti Íslands afhenda þau við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Neysla íslenskra ungmenna á orkudrykkjum með því mesta sem þekkist í Evrópu.

Á Forvarnardeginum í ár beinir stýrihópur Forvarnardagsins sjónum að mikilli notkun orkudrykkja en kannanir hafa leitt í ljós að 34% nemenda 10. bekk drekka einn eða fleiri orkudrykki daglega. Þá drekka 9% drengja og 7% stúlkna tvo eða fleiri orkudrykki daglega. Nýleg könnun frá Rannsóknum og greiningu sýnir að að 44% ungmenna í 9. bekk og 54% ungmenna í 10. bekk fá ekki nægan svefn og þeir sem drekka fleiri orkudrykki eru líklegri en aðrir til að sofa minna. Í efstu bekkjum grunnskóla sýna niðurstöður að 74% þeirra sem drekka tvo eða fleiri orkudrykki á dag fá ekki nægan nætursvefn (Rannsóknir og greining, Ungt fólk 2020).

Í dag á Forvarnardeginum birtir Matvælastofnun skýrslu um heilsufarslega áhættu vegna neyslu íslenskra ungmenna í 8. – 10. bekk á koffeini í drykkjarvörum. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að neysla íslenskra ungmenna í 8. – 10. bekk á orkudrykkjum sem innihalda koffín er með því mesta sem þekkist í Evrópu. Það er því afar mikilvægt að við sem samfélag bregðumst við þessari stöðu. Á vefsíðu embættis landlæknis má finna fróðlegar upplýsingar um áhrif orkudrykkja á líkamann.

Nú á þessum undarlegu og krefjandi tímum megum við ekki láta deigan síga þegar kemur að forvörnum. Mikilvægt er að hafa í huga að börn og unglingar eru viðkvæmari fyrir áhrifum koffíns en fullorðnir. Við hvetjum kennara og skólayfirvöld til að leggja áherslu á forvarnarstarf, hér eftir sem hingað til.

Nánari upplýsingar um Forvarnardaginn veitir Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir, verkefnisstjóri, netfang sh@landlaeknir.is

<< Til baka