01.10.20

Hraðpróf/skyndipróf til greiningar á COVID-19

Samtals hafa nú greinst um 33.5 milljón COVID-19 tilfelli í heiminum og staðfest dauðsföll eru yfir milljón. Flest tilfelli eru að greinast í Ameríku (Norður og Suður) en nýleg aukning hefur aftur orðið í Evrópu og þ.m.t. á Norðurlöndum.

Kjarnsýrumögnun (RT-PCR próf), sem er notað til greiningar á COVID-19, er mjög næmt fyrir erfðaefni veirunnar (SARS-CoV-2) og öndunarfærasýni er oftast jákvætt rétt fyrir upphaf einkenna og áfram í um mánuð (stundum lengur en þá er veiran þó ekki talin virk). Þessi rannsóknaraðferð er næmasta og besta leiðin sem völ er á til að greina veiruna. Mótefni myndast svo í sermi (blóðvatni) á 1–4 vikum. Mótefnamælingar eru því notaðar til að greina fyrri (óvirka) sýkingu.

Nýlega mælti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) með ákveðnum hraðprófum/skyndiprófum fyrir COVID-19 en hingað til hefur stofnunin ekki mælt með slíkum prófum. Hraðpróf er önnur aðferð til að greina virka sýkingu en þau mæla ákveðinn próteinhluta veirunnar (mótefnavaka) og virka best þegar viðkomandi er mest smitandi. Hraðpróf hafa þann kost að vera ódýrari og fljótlegri í framkvæmd en PCR-próf. Þessi próf nýtast því best þar sem PCR-próf er ekki í boði eða erfitt í framkvæmd. Prófin sem um ræðir hér eru annars vegar frá fyrirtækinu SD Biosensor í S-Kóreu og hins vegar frá bandaríska fyrirtækinu Abbott, og bæði nota öndunarfærasýni. Mörg önnur hraðpróf eru í þróun eða á markaði en eru mjög misjöfn að gæðum og almennt ekki eins áreiðanleg og PCR-próf. Sú stofnun sem sér um prófin hér á landi er sýkla- og veirufræðideild Landspítala og það þarf að skoða hversu góð þessi hraðpróf eru til að greina rétt þá sem eru smitaðir, og þá sem ekki eru smitaðir í samráði við hana. Hraðpróf til greiningar á smitsjúkdómum eins og COVID-19, sem sóttvarnalög taka til skulu gerð undir eftirliti og á ábyrgð rannsóknastofu með starfsleyfi til slíks frá heilbrigðisráðherra.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka