16.09.20

Heilsuhakkaþon í Nýsköpunarvikunni

Embætti landlæknis stendur fyrir heilsuhakkaþoni, eða lausnarmóti, fyrir heilbrigðislausnir í Nýsköpunarvikunni 2020.

Lausnamót snúast um vandamál og lausnir. Fyrirtæki og stofnanir setja fram krefjandi og skemmtilegar áskoranir og þátttakendur takast á við að leysa þau í teymum. Lausnamót er þannig blanda af forritunar og viðskiptaþróunarkeppni. Þau eru sérstaklega áhugaverð leið til að fá utanaðkomandi aðila að borðinu og mörg fyrirtæki nota lausnamót sem vettvang til að finna hæfileikaríka einstaklinga.

Embætti landlæknis leitar að lausn, hönnun að lausn eða þjónustu sem getur nýst heilbrigðisstarfsmönnun eða almenningi í landinu. Líki embættinu við lausnina getur teymið þitt orðið þess heiðurs aðnjótandi að vinna með embættinu í því að koma lausninni í notkun í heilbrigðiskerfinu.

Sérstaklega er leitað að lausnum sem nýtast almenningi til að bæta sína heilsu og auðvelda þeim að taka þátt í sinni meðferð. Lausnin gæti nýst sérstaklega hópi fólks sem glímir við ákveðinn langvinnan sjúkdóm eða þarf mikið að nýta sér ákveðna þjónustu í styttri tíma.

Einnig leitar embættið að nýjum lausnum sem nýtast heilbrigðisstarfsmönnum til að fá betri yfirsýn yfir sjúkrasögu sinna skjólstæðinga, flýta fyrir vinnu við meðferðina eða auka gæði þjónustunnar. Æskilegt er að verkefnin styðji við stefnu embættisins í rafrænum sjúkraskrármálum.

Embættið hvetur alla sem hafa hugmyndir að lausnum til að taka þátt.

Ingi Steinar Ingason
sviðsstjóri
Miðstöð rafrænna heilbrigðislausn

<< Til baka