14.09.20

Sýnataka til að stytta sóttkví vegna nándar við tilfelli (þekkt útsetning)

Frá upphafi COVID-19 faraldursins hefur útsettum einstaklingum verið gert að fara í 14 daga sóttkví skv. leiðbeiningum sóttvarnalæknis. Frá 14. september 2020 eiga þessir einstaklingar kost á að mæta í PCR skimun eftir 7 daga til að stytta sóttkví. Ef engin ummerki eru um veiruna þá losnar viðkomandi úr sóttkvínni. Næstu 7 dagana þurfa þeir samt að gæta vel að sínum sóttvörnum og forðast samneyti við viðkvæma einstaklinga. Sýnataka þessi er einstaklingi að kostnaðarlausu.

Í kjölfar símtals frá smitrakningarteymi fá einstaklingar sem er skipað í sóttkví skilaboð í Heilsuveru (ef með rafræn skilríki) eða tölvupóst með upplýsingum um heimasóttkví og um sýnatöku til að stytta sóttkví. Mæta þarf með skilríki og strikamerki sem er sent kvöldið áður en viðkomandi á tíma, gegnum Heilsuveru (ef með rafræn skilríki) eða tölvupóst. Ef viðkomandi getur ekki mætt á boðuðum degi af einhverjum ástæðum er hægt að mæta síðar og lengist þá sóttkví eftir því. Ekki er hægt að mæta fyrr. Heilsugæslan mun sinna skimun en strikamerki er sérstakt fyrir þessi sýni og frábrugðið strikamerki vegna landamæraskimunar eða sýnatöku vegna einkenna.

Fólk með einkenni um COVID-19 á ekki að mæta í skimun án þess að hafa samband fyrst við heilsugæsluna í síma eða með skilaboðum á Heilsuveru, á dagvinnutíma, eða utan dagvinnutíma við Læknavaktina í síma 1700. Í neyðartilvikum skal hringja í 112.

Hér eru upplýsingar um sýnatökustaði og opnunartíma á vef embættis landlæknis. 

Þangað til niðurstaða sýnatöku er ljós þarf viðkomandi að fylgja reglum um sóttkví. Ef niðurstaða sýnatöku er neikvæð (veiran fannst ekki) þá er sóttkví hætt. Skilaboð um neikvæð sýni munu berast í Heilsuveru (ef með rafræn skilríki) eða sem SMS skilaboð. Ef sýni reynist jákvætt er haft samband við einstakling símleiðis. Ekkert svar eftir 24 klst. þýðir að sýni var neikvætt. Eftir 24 klst. er hægt að beina fyrirspurnum til vefspjalls á covid.is og þar er einnig að finna nánari upplýsingar.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka