10.09.20

Stöndum saman gegn sjálfsvígum

Í dag, 10. september, er alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga. Þá minnumst við, eins og reyndar alla daga, þeirra sem hafa fallið fyrir eigin hendi, ástvina þeirra  og förum sérstaklega yfir forvarnir. Á álagstímum eins og við upplifum í heimsfaraldri COVID-19 skiptir sérstaklega miklu máli að standa saman að forvörnum.

Almennt eru á heimsvísu sjálfsvíg meðal 20 algengustu dánarorsaka. Síðastliðna tvo áratugi hefur árlegur fjöldi sjálfsvíga á Íslandi verið á bilinu 26-50, eða að meðaltali 39 á ári. Hvert dýrmætt líf sem við missum skilur eftir sig mikla sorg og tómarúm. Fjöldi manns; fjölskylda, vinir, samstarfsfélagar, heilbrigðisstarfólk og allt nánasta umhverfi einstaklingsins verður fyrir miklum og langvarandi áhrifum í kjölfarið. Sjálfsvíg ástvinar er eitt mesta áfall sem hægt er að upplifa.

Forvarnir eru það mikilvægasta í þessu sambandi og þar skiptir mestu víðtæk nálgun og samvinna stofnana, félagasamtaka, stjórnvalda og einstaklinga. Þess vegna er þema forvarnadagsins: „Stöndum saman gegn sjálfsvígum“.

Það er margt hægt að gera til að hindra sjálfsvíg. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur áherslu á að þjóðir séu með aðgerðaáætlun. Ísland er með slíka áætlun og unnið er markvisst að henni af fjölda aðila. Aðgerðaáætlunin tekur til  eflingar geðheilsu og seiglu í samfélaginu, bættrar geðheilbrigðisþjónustu, að hugað sé að öryggismálum varðandi hættuleg efni og hluti, til aðgerða fyrir sérstaka áhættuhópa, stuðnings við eftirlifendur auk eflingar á þekkingu almennt um sjálfsvíg og sjálfsvígsforvarnir. Heilbrigðisráðherra tilkynnti í dag fjármagn fyrir stöðu verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis verður tryggt út næsta ár.

Það skiptir miklu að grípa snemma einstaklinga sem líður illa. Tryggja þarf gott og hindrunarlaust aðgengi að þjónustu ásamt því að tryggja snemmbúin inngrip  til þeirra sem þurfa. Það skiptir máli að gæta að varkárni í umfjöllun sjálfsvíga í fjölmiðlum, en það getur haft jákvæð áhrif að fjölmiðlar tali af ábyrgð um sjálfsvíg og segi í auknum mæli frá úrræðum og batasögum sem geta gefið von og hugmyndir að uppbyggilegum leiðum. Embætti landlæknis birti um þetta leiðbeiningar til fjölmiðla fyrir réttu ári.  

Stuðningur frá nánasta umhverfi einstaklings getur skipt sköpum. Sem fjölskyldumeðlimur, vinur, samstarfsfélagi eða nágranni getum við öll haft áhrif með því að staldra við og fylgjast með líðan okkar og líðan fólksins í kringum okkur. Það er í lagi að spyrja út í sjálfsvígshugsanir og að tala um þær. Það getur hjálpað einstaklingi í vanlíðan að finna að einhver er til staðar til að hlusta og sýna skilning. Munum öll eftir úrræðum eins og Hjálparsíma Rauða krossins 1717, Píetasímanum 552-2218 og netspjalli við hjúkrunarfræðing á heilsuvera.is og við ráðgjafa á 1717.is. Það má líka leita aðstoðar á heilsugæslustöðvum og á geðsviðum Landspítala og sjúkrahússins á Akureyri. Fleiri úrræði má einnig finna undir Líðan okkar á covid.is og efni þessu tengdu má finna undir Sjálfsvígsforvarnir á landlaeknir.is.

Það er hjálp til staðar og það er alltaf von. Öll getum við átt þátt í að byggja upp vonina og styðja við fyrsta skrefið inn í hjálpina en hvert skref getur skipt máli, stórt eða smátt. Sýnum hvert öðru umhyggju, stundum þarf kannski ekki annað en að spyrja hvernig líður þér og munum líka að eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt eins og skáldið sagði.

Við erum öll sjálfsvígsforvarnir!

Alma D. Möller
landlæknir

<< Til baka