18.08.20

Tilkynning frá sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra 18. ágúst 2020

Vegna umræðu um fjarlægðarmörk vill almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknir árétta mikilvægi reglna og leiðbeininga um tvo metra á milli fólks.

Tveggja metra reglan er sett þar sem hún er ein af grunnstoðum sýkingarvarna. Nánd á milli fólks eykur áhættuna á því að fá smit. Hvað veiruna varðar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, hefur komið í ljós að einn metri á milli einstaklinga minnkar líkurnar á smiti fimmfalt. Fyrir hvern metra til viðbótar tvöfaldast líkurnar á því að forða fólki frá smiti. Á þeim grunni hafa reglur og leiðbeiningar um fjarlægðarmörk verið settar víða um heim.

Vegna misræmis í orðalagi í minnisblaði sóttvarnalæknis, reglugerð heilbrigðisráðherra og upplýsingum á covid.is, hefur misskilnings hefur gætt um fjarlægðarmörk.

Í 4. gr. auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar nr. 792/2020 er fjallað um almenna nálægðartakmörkun.

Frá því að faraldurinn kom upp hér á landi hefur stefnan verið sú að setja það í hendur fólks að fara eftir þeim leiðbeiningum og reglum sem settar hafa verið. Fólk þarf að vega og meta áhættuna hverju sinni til dæmis þar sem fólk kemur saman, skylt eða óskylt. Vega þarf og meta það með sínum nánustu hvernig samneyti er háttað, hafa upplýsingar um ferðir hvers annars og mögulegar smitleiðir.

Fyrst þegar fjarlægðarmörk voru sett á, á milli einstaklinga, var hún hluti af sóttvarnaraðgerðum til þess að minnka líkur á því að smit bærist á milli fólks. Tillögur sóttvarnalæknis hafa tekið breytingum eftir þróun faraldursins hér á landi og var til að mynda valfrjáls í sumar um tíma.

Krafan með reglunni, eins og fram kemur í reglugerð heilbrigðisráðuneytisins, er að aðilum í atvinnurekstri, hvaða rekstri sem það nær yfir, er skylt að tryggja fjarlægðarmörk á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.

Ekki kemur fram í reglugerðinni að einstaklingar þurfi að uppfylla fjarlægðarmörkin heldur er krafan lögð á starfsemi. Leiðbeiningar hafa hins vegar verið gefnar út af sóttvarnalækni þar sem biðlað er til fólks um að viðhafa fjarlægðarmörk á milli fólks. Í þessum leiðbeiningum hefur ýmist verið talað um

að fjarlægðarmörkin skuli viðhafa á milli óskyldra aðila, ótengdra aðila eða aðila sem ekki deiliheimili. Þetta misræmi í orðalagi er því tilefni til útskýringar.
Einstaklingar eru því sérstaklega hvattir til virða fjarlægðarmörkin í umgengni við ókunnuga en í umgengni við tengda/skylda einstaklinga þarf að vega og meta hvort viðhafa skuli fjarlægðamörk.

Meðan tveggja metra reglan er í gildi getur rekstraraðili ekki skorast undan því að tryggja fjarlægðarmörkin og við því liggur sektarheimild. Ekki liggur fyrir sektarheimild fyrir einstaklinga sem virða ekki fjarlægðarmörk.

Fjöldi leiðbeininga hafa verið gerðar og reglur settar frá því faraldurinn kom upp og mörg álitamál komið til afgreiðslu hjá sóttvarnalækni sem meðal annars lítur að fjarlægðarmörkum.

Punktar um fjarlægðarmörk sem komið hafa fram í minnisblöðum sóttvarnalæknis.

 

Minnisblað sóttvarnalæknis 21.03.2020

Að ráðherra ákveði að virkja heimildir sóttvarnalaga til að setja á samkomubann. Með samkomubanni er átt við skipulagða viðburði þar sem fleiri en 20 manns koma saman. Við öll mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum. Þessi fyrirmæli nái til landsins alls.

Minnisblað sóttvarnalæknis 11. apríl 2020

 • Ég legg hins vegar áherslu á að áfram þarf að greina hratt einstaklinga með COVID-19, einangra sýkta, rekja smit og beita sóttkví á einstaklinga sem grunaðir eru um smit. Þessu þarf að viðhalda a.m.k. út árið 2020. Jafnframt þarf að viðhalda leiðbeiningum til einstaklinga um sóttvarnir sem einkum snúa að handþvotti og almennu hreinlæti, viðhaldi á nándarmörkum (2 m) og verndun viðkvæmra hópa.

Minnisblað sóttvarnalæknis 13. apríl 2020

 • Lagt er til að skipulagt íþróttastarf innandyra barna á leik- og grunnskólaaldri verði heimilt utandyra með eftirfarandi takmörkunum:
  • Ekki fleiri en 50 einstaklingar verði saman í hóp.
  • Halda skal tveggja metra fjarlægð eftir því sem það er unnt, einkum hjá eldri börnum.


Minnisblað sóttvarnalæknis 20. maí 2020 (hlekkur fjarlægður í nóv 2020 þar sem skjal komið með aðra vefslóð á vef Stjórnarráðsins)

 • Allir einstaklingar eru hvattir til að viðhalda tveggja metra fjarlægðarreglu í samskiptum við aðra eftir því sem aðstæður leyfa.
 • Í almenningsrýmum þar sem gert er ráð fyrir að almenningur eigi aðgengi að, hvort sem er án skilyrða eða að uppfylltum skilyrðum, s.s. greiðslu aðgangsgjalds eða vegna vinnusambands, skal leitast við að bjóða einstaklingum að halda 2ja metra fjarlægð frá öðrum eins og kostur er. Þar sem veitt er lögbundin þjónusta eða almenningur á ekki kost á öðru en mæta skal vera unnt að tryggja þeim sem það kjósa að halda 2ja metra fjarlægð frá öðrum.

Minnisblað sóttvarnalæknis 29. júlí 2020 (hlekkur fjarlægður í nóv 2020 þar sem skjal komið með aðra vefslóð á vef Stjórnarráðsins)

 • Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi verði viðhöfð sú regla að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga en að sú ráðstöfun verði ekki lengur valfrjáls.
 • Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga með fjöldatakmörkun verði krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Þetta á t.d. við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur, og starfsemi s.s. hárgreiðslustofur og nuddstofur. Andlitsgrímur sem notaðar eru utan heilbrigðisþjónustu ættu að lágmarki uppfylla kröfur sem fram koma í vinnustofusamþykkt evrópsku staðlasamtakanna CEN.

Minnisblað sóttvarnalæknis 11. ágúst 2020 (hlekkur fjarlægður í nóv 2020 þar sem skjal komið með aðra vefslóð á vef Stjórnarráðsins)

 • Nándarregla. Viðhafa skal tveggja metra nándarreglu á milli óskyldra einstaklinga nema í skólum. Þar skal eins metra nándarregla gilda.

<< Til baka