21.07.20

Breytt framsetning gagna frá sóttvarnalækni vegna COVID-19

Frá og með deginum í gær hefur verið gerð breyting á framsetningu gagna frá sóttvarnalækni. Hún felst í því að ekki eru lengur talin með í heildarfjölda smita þau tilvik úr landamæraskimun þar sem mótefni hefur mælst gegn veirunni.

Frá 15. júní hafa verið gefnar upplýsingar um þann fjölda sýna í landamæraskimun sem hafa gefið til kynna að veiran SARS-COV-2 (sú sem veldur COVID-19) sé til staðar. Allir þeir sem mælst hafa með veiruna hafa í kjölfarið verið prófaðir fyrir mótefnum í blóði og teljast þeir sem hafa slík mótefni ekki lengur vera veikir af COVID-19, og því ekki smitandi.

Af þeim 110 einstaklingum sem mælst hafa jákvæðir á veiruprófinu hafa 92 reynst hafa mótefni, en 18 hafa verið með virkt smit. Hingað til hafa öll þau tilvik, þar sem um jákvæða svörun á veiruprófi var að ræða, verið skráð sem ný tilvik COVID-19 á Íslandi. Þessu hefur nú verið breytt til réttara horfs, þar sem umræddir einstaklingar ættu ekki að teljast hafa verið veikir af sjúkdóminum á Íslandi.

Áfram verður hægt að nálgast allar upplýsingar um fjölda skimana, fjölda jákvæðra prófa og virk og óvirk smit.

Sjá nánar tölfræðisíðu covid.is 

<< Til baka