29.06.20

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu vegna notkunar áfengis og vímuefna - samantekt

Embætti landlæknis birtir nú í fyrsta sinn samantekt um aðgengi að heilbrigðisþjónustu vegna notkunar áfengis og vímuefna. Samantektina má nálgast hér.

Hérlendis er umfang vanda, tengdum áfengis- og vímuefnum mikið. Fjórðungur karla og ögn færri konur falla undir skilgreiningu á áhættusömu drykkjumynstri. Notkun áfengis og annarra vímuefna getur haft alvarleg áhrif á líkamlega, félagslega og sálræna heilsu einstaklinga en áfengi er talið eiga sök á rúmlega 3 milljónum dauðsfalla í heiminum á hverju ári og er þriðji stærsti áhættuþátturinn á lakri heilsu. Því er mikilvægt að efla forvarnir, snemmtæka íhlutun, heilbrigðis- og félagsþjónustu, endurhæfingu og skaðaminnkandi úrræði er varða skaðsemi neyslunnar á notendur, aðstandendur þeirra og samfélagið í heild.

Samantektin, sem byggir á gögnum frá heilbrigðisstofnunum, undirstrikar fyrst og fremst mikilvægi samræmingar í skráningu, viðmiða og verklagi þegar kemur að meðferð við áfengis- og vímuefnavanda. Biðtími eftir þjónustu er víða innan þeirra marka er embættið leggur til.

Embætti landlæknis leggur fram nokkrar tillögur til úrbóta. Rauði þráðurinn í þeim er sú staðreynd að nauðsynlegt er að allt verklag er tengist heilbrigðisþjónustu verði skilgreint og samræmt, því forsenda góðs árangurs er að samstarf þeirra sem veita þjónustu sé virkt og hlutverkaskipting skýr. Landlæknir leggur til að skipaður verði vinnuhópur með fulltrúum frá öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar, fulltrúum félagsþjónustu og heilbrigðisyfirvalda til að finna leiðir til að efla þjónustuna enn frekar.

Ein af tillögum embættis landlæknis er að stefna í áfengis- og vímuvörnum verði endurskoðuð og gildi til ársins 2030 og að stefnunni fylgi tímasett aðgerðaáætlun sem taki meðal annars til heildstæðra viðmiða og alþjóðlegra staðla um þjónustu og meðferð á sviði áfengis- og vímunefnameðferðar.

Nánari upplýsingar veitir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, netfang kjartanh@landlaeknir.is

<< Til baka