23.06.20

Lýðheilsuvísar 2020 kynntir á Selfossi

Í dag voru nýir lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum kynntir á Hótel Selfossi, Árborg. Er þetta í fimmta sinn sem lýðheilsuvísar embættis landlæknis eru gefnir út.

Allar upplýsingar um lýðheilsuvísa 2020 má finna á vef landlæknis.

Upptökur frá viðburðinum má nálgast hér.

Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar. Þeir eru settir fram til þess að veita yfirsýn og auðvelda heilbrigðisþjónustu og sveitarfélögum að greina stöðuna í eigin umdæmi þannig að vinna megi með markvissum hætti að því að bæta heilsu og líðan íbúanna.
Við val á lýðheilsuvísum er sjónum einkum beint að þeim þáttum sem hafa áhrif á heilsu og líðan sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna. Þá er leitast við að velja þá þætti í sjúkdómabyrði sem mikilvægt er að heilbrigðisþjónusta hvers umdæmis geri sér grein fyrir og bregðist við.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Árborgar ávarpaði fundinn. Hann ræddi meðal annars um mikilvægi góðra lykilvísa og áskoranir við að nýta þá til beinna aðgerða. Landlæknir, Alma D. Möller, sagði frá samstöðu og samstarfi hér á landi á tímum COVID-19.

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis greindi frá lýðheilsuvísum tengdum lifnaðarháttum. Í erindi Dóru kom fram að Íslendingar eru heilt yfir hamingjusamir, rúmlega 60% landsmanna telja sig mjög hamingjusama og var hlutfallið hæst á Suðurlandi árið 2019. Hlutfall þeirra sem finna oft fyrir einmannaleika hefur aukist í tilteknum umdæmum en minnkað í öðrum. Þannig upplifðu tæplega 15% íbúa Austurlands oft einmannaleika árið 2019 í samanburði við ríflega 10% á landinu öllu. Heilt yfir virðist yngra fólk frekar einmana en þeir sem eldri eru en um 22% fólks á aldrinum18-25 ára sögðust finna oft eða mjög oft fyrir einmanaleika árið 2019. Hlutfall þeirra sem sofa of lítið er einnig breytilegt eftir umdæmum, þannig sofa um 35% fullorðinna og 46% unglinga á Suðurnesjum of lítið í samanburði við 24% fullorðinna og 42% unglinga á Austurlandi.

 Það veldur áhyggjum hve mörgum nemendum líður ekki vel í skóla og hversu margir drengir hafa orðið fyrir ofbeldi í skóla. Um 14% nemenda í 5.-7. bekk langar að hætta í skóla og á Austurlandi er þetta hlutfall 21%. Þá hafa tæp 30% drengja í 5.-7. bekk á landinu öllu og 35% drengja á Austurlandi orðið fyrir ofbeldi í skóla síðastliðinn vetur.

Íslendingar hafa lengi átt Norðurlandamet í neyslu á gosdrykkjum. Enn frekari aukning á daglegri gosdrykkjaneyslu er því áhyggjuefni. Um fimmtungur fullorðinna og barna í 5.-7. bekk drakk gosdrykki daglega árið 2019. Þá ná aðeins um 11% fullorðinna ráðleggingum embættis landlæknis um neyslu á fimm skömmtun af ávöxtum og grænmeti á dag.

Aðeins 14% barna í 5.-7. bekk hreyfa sig í samræmi við ráðleggingar embættisins (a.m.k. 60 mín á dag) þrátt fyrir að 2/3 allra barna á landinu taki þátt í skipulögðu íþróttastarfi. Rúmlega 11% fullorðinna stundaði enga rösklega hreyfingu yfir vikuna árið 2019.

Heilt yfir hefur áhættudrykkja fullorðinna minnkað lítillega á landinu en tæplega fjórðungur landsmanna féll árið 2019 undir þá skilgreiningu að vera með áhættusamt neyslumynstur áfengis. Mánaðarleg ölvunardrykkja nemenda í tíunda bekk hefur aukist lítillega. Ánægjulegt er að sjá að enn dregur úr daglegum reykingum fullorðinna og rafrettunotkun ungmenna. Talsverð aukning hefur hins vegar orðið í notkun á tóbaki í vör, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum og er aukningin mest meðal ungra kvenna.

 Sigríður Haraldsd. Elínardóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá embætti landlæknis fjallaði um lýðheilsuvísa sem tengjast samfélaginu og heilsu og sjúkdómum. Sigríður vakti athygli á því að íbúum á Suðurnesjum og Suðurlandi hefur fjölgað hlutfallslega meira undanfarin ár en íbúum í öðrum heilbrigðisumdæmum. Ör fjölgun íbúa gefur vísbendingu um áskoranir og tækifæri sem taka þarf tillit til í lýðheilsustarfi. Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna til ársins 2030 snertir á þessu málefni þar sem fram kemur að þróa þurfi trausta, staðbundna innviði til að styðja við efnahagsþróun og velmegun fyrir alla.

Heldur lægra hlutfall fólks átti erfitt með að ná endum saman árið 2019 en árin á undan og hefur hlutfallið lækkað mest á Suðurlandi. Á síðustu 15 árum hefur dregið úr líkum á því að deyja fyrir 70 ára aldurs vegna tiltekinna langvinnra sjúkdóma en mismikið eftir heilbrigðisumdæmum. Í heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna er stefnt að því að fækka ótímabærum dauðsföllum af völdum annarra sjúkdóma en smitsjúkdóma um þriðjung með fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferð.

Tíðni sýklalyfjaávísana til barna undir 5 ára hefur haldið áfram að lækka. Enn er þó talsverður munur á tíðni ávísana milli heilbrigðisumdæma. Hún er hæst á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum en fer lækkandi í báðum umdæmum. Lægst er tíðnin á Austurlandi.

Þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini stendur í stað miðað við árið 2018 fyrir landið heild. Þátttaka í skimum fyrir brjóstakrabbameini jókst hins vegar lítillega milli ára í fyrsta sinn í nokkur ár og á það við um öll umdæmi.

Nýr lýðheilsuvísir greinir frá fylltum fullorðinstönnum við 13 ára aldur. Meðalfjöldi skemmdra og fylltra fullorðinstanna (tannátustuðull, DFT) hjá tólf ára börnum er notaður sem alþjóðlegur mælikvarði á tannheilsu. Alþjóðleg markmið stefna að því að lækka tannátustuðul tólf ára barna niður fyrir einn. Þar sem nær öll tólf og þrettán ára gömul börn eru í virku eftirliti hjá heimilistannlæknum hérlendis gefur tannfyllingastuðull (Filled teath, FT) þrettán ára barna vísbendingar um tannátustuðull (DFT) og þar með einnig um tannheilsu barna á Íslandi. Nú mælist þessi stuðull rúmlega 1,5 fyrir landið í heild og hefur lækkað frá árinu 2015. Talsverður breytileiki er á fjölda fylltra fullorðinstanna hjá börnum eftir heilbrigðisumdæmum.

Annar nýr vísir greinir frá fjöllyfjanotkun aldraðra, þ.e. hlutfall þeirra sem taka fleiri en fimm lyf samtímis. Árið 2019 féllu um 56% aldraðra, 75 ára og eldri, undir þessa skilgreiningu og hefur hlutfallið lítið breyst allra síðustu ár. Hlutfallið er nærri meðaltali nokkurra OECD landa.

Komum á heilsugæslustöðvar á íbúa heldur áfram á fjölga ef á heildina er litið. Mest er fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu þar sem nýtt fjármögnunarkerfi var tekið í notkun á árinu 2017. Fjármögnunarkerfið hefur m.a. það markmið að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga. Á sama tíma hefur lítillega dregið úr komum til sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og er fjöldi koma á íbúa enn mjög mismunandi eftir heilbrigðisumdæmum. Komur á íbúa voru flestar á höfuðborgarsvæðinu þar sem mest framboð er af þessari þjónustu.

Að lokum fjallaði Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, um stefnu stofnunarinnar í lýðheilsumálum. Sagði Díana m.a. frá geðheilbrigðisteymi sem tók til starfa á HSU í árslok 2019 og frá lífsstíllsmóttökum þar sem fólki er kennt að bera ábyrgð á eigin heilsu.

Fundinum var stjórnað af Braga Bjarnasyni, deildarstjóra frístunda- og menningardeildar sveitarfélagsins Árborgar og tengiliðs heilsueflandi samfélags.

<< Til baka