29.05.20

Alþjóðlegur dagur án tóbaks er 31. maí

Ungt fólk er markhópur fyrir nýjar vörutegundir tóbaks og nikótíns

Dagur án tóbaks var fyrst haldinn á Íslandi árið 1979 en hefur verið haldinn árlega hér á landi frá árinu 1987. Síðan árið 2006 hefur heiti dagsins verið Dagur án tóbaks en áður var dagurinn nefndur Reyklausi dagurinn.

Áratugum saman hefur tóbaksiðnaðurinn notað markaðsetningu til að ná til ungmenna og fá þannig nýjan hóp neytenda. Dagur án tóbaks er í ár helgaður baráttu gegn aðferðum þeirra sem með margvíslegum hætti reyna fá ungmenni til að ánetjast tóbaki og nikótíni.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin stendur fyrir herferð í tilefni af Dagur án tóbaks 31. maí og beinir athyglinni að nýjum vörutegundum tóbaks og nikótíns sem eru sérstaklega gerðar til að höfða ungs fólks. Vakin er athygli á samfélagsmiðlaherferðum, sem gera þessar vörur freistandi fyrir ungmenni.

Spennandi bragðtegundir og litríkar vörur eru notaðar til að plata ungt fólk til að prófa og spá minna í skaðsemi vörunnar.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvetur alla, sem geta náð til ungs fólks og bera hag þeirra fyrir brjósti, til að vekja athygli á þeim aðferðum sem iðnaðurinn notar til að fá þau til að ánetjast þessum vörum.

Daglegar reykingar frá árinu 1991 – 2020 (mælingar 2020, janúar-apríl)

Dregið hefur úr reykingum hér á landi undanfarna áratugi, bæði meðal karla og kvenna. Daglegar reykingar mælast nú um 6% það sem af er þessu ári. Hjá ungu fólki 18-34 ára eru daglegar reykingar þó enn minni eða 2% meðal karla og 4% meðal kvenna.

Notkun á tóbaki í vör hefur verið umtalsverð meðal ungs fólks undanfarin ár. Notkun ungra karlmanna 18-34 ára hefur dregist töluvert saman það sem af er þessu ári eða úr 17% í 12%. Svipuð þróun er í aldurshópnum 35-44 ára karlmanna eða úr 14% í 9% sem nota daglega tóbak í vör. Hins vegar hefur dagleg notkun tóbaks í vör meðal ungra kvenna 18-34 ára verið að aukast undanfarin ár og er nú um 6%. 

Viðar Jensson
verkefnisstjóri Tóbaksvarna

<< Til baka