06.05.20

Starfsleyfaskrá – heilbrigðisstarfsmenn

Skrá yfir heilbrigðisstarfsmenn með gilt starfsleyfi hér á landi er nú aðgengileg á heimasíðu embættis landlæknis. Í starfsleyfaskránni eru allar heilbrigðisstéttir sem þurfa starfsleyfi landlæknis. Einnig kemur fram í skránni ef takmarkanir eru á starfsleyfi heilbrigðisstarfsmanna. Þá eru í skránni upplýsingar um rekstur í heilbrigðisþjónustu og sérfræðileyfi. 

Áréttað skal að í skránni eru aðeins þeir heilbrigðisstarfsmenn sem hafa gilt starfsleyfi.

Með birtingu skráarinnar á heimasíðu embættisins geta allir kynnt sér hverjir hafa gilt starfsleyfi sem heilbrigðisstarfsmenn hér á landi.

Ýmsir leitarmöguleikar ættu að auðvelda notkun skrárinnar á heilbrigðisstofnunum, til að ganga úr skugga um gilt starfsleyfi þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem ráðnir eru til starfa. Slíkt kemur þó að sjálfsögðu ekki í stað þess að umsækjendur leggi fram tilskilin gögn og er mælt með að yfirfara gögnin fyrst og sannreyna síðan starfsleyfi með uppflettingu í starfsleyfaskrá.

Áfram verður unnið að því að bæta upplýsingum í skrána og bæta hana eftir þörfum. Skráin er uppfærð daglega.

Athugasemdir við upplýsingar í starfsleyfaskránni skal senda á netfangið starfsleyfi@landlaeknir.is

Þess skal getið að 1. janúar 2013 öðlaðist gildi reglugerð nr. 1123/2012 um menntun, réttindi og skyldur tannsmiða og klínískra tannsmiða til að hljóta starfsleyfi. Um tannsmiði með sveinspróf, meistararéttindi og klíníska tannsmiði sem öðlast höfðu starfsréttindi fyrir gildistöku reglugerðarinnar, gildir að þeir halda þeim réttindum óskertum. Tekið skal fram að þeir eru ekki í starfsleyfaskránni.

<< Til baka