29.04.20

Breytt verklag varðandi framvísun umsækjanda um almennt lækningaleyfi á vottorðinu „Certificate of Confirmity“.

Embætti landlæknis tilkynnir um breytt verklag er varðar framvísun umsækjanda um almennt lækningaleyfi á vottorðinu „Certificate of Confirmity“.

Landlæknir getur krafist þess að umsækjandi um almennt lækningaleyfi leggi fram vottorð frá lögbæru stjórnvaldi í heimalandi sínu eða landi sem gaf út vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem staðfestir að framlögð gögn séu í samræmi við ákvæði tilskipunar 2005/36/EB, sbr. e-lið 1. mgr. 30. gr. reglugerðar nr. 461/2011.

Nefnist umrætt vottorð á ensku „Certificate of Confirmity“ eða í sumum tilvikum „Letter of Confirmity“.

Embætti landlæknis hefur hingað til ekki krafist þess að umsækjendur, sem numið hafa læknisfræði við erlendan skóla innan EES og auk þess lokið starfsnámi (kandídatsári) hér á landi, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 467/2015, framvísi slíku vottorði.

Frá 15. maí 2020 mun embættið krefjast framvísunar slíks vottorðs þegar sótt er um almennt lækningaleyfi hér á landi og umsækjandi hefur stundað nám í EES-ríki, að Íslandi undanskildu, óháð því hvort umsækjandinn hafi lokið starfsnámi hér á landi.

Vakin er athygli á því að umrætt vottorð skal innihalda staðfestingu lögbærs stjórnvalds á því að menntun umsækjanda uppfylli skilyrði 24. gr. tilskipunar 2005/36/EB.

<< Til baka