07.04.20

Sýnum samfélagslega ábyrgð og fylgjum fyrirmælum

 

Embætti landlæknis hefur tekið saman tíu heilræði sem byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað er mikilvægt að hafa í huga til að hlúa vel að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Heilræði dagsins í dag snýr að samfélagslegri ábyrgð. 

Sýnum ábyrgð í hegðun okkar og fylgjum leiðbeiningum almannavarna til að vernda fólkið í kringum okkur og heilbrigðiskerfið. Forðumst einnig óþarfa áhyggjur því að þær geta haft neikvæð áhrif á lífsgæði og öryggistilfinningu okkar.

Við stöndum nú frammi fyrir áskorunum sem hafa mikil áhrif á daglegt líf okkar. Þessar áskoranir kalla á samstöðu okkar allra og að við fylgjum leiðbeiningum almannavarna til þess að lágmarka skaðann.

Það er eðlilegt að finna fyrir áhyggjum yfir því sem við þekkjum ekki. Til að draga úr áhyggjum í þessu ástandi er mikilvægt  að vita hverju við höfum stjórn á, hvað við getum gert til þess að forðast smit og hvað við eigum að gera ef við smitumst. Ef við erum óviss um hvaða takmarkanir gilda fyrir okkur er mikilvægt að afla áreiðanlegra upplýsinga. Munum einnig að börn þurfa traustar upplýsingar sem hæfa þroska þeirra og spyrjum þau um það sem þau vilja vita.  

Á síðustu vikum hefur öllum orðið ljóst að við berum ábyrgð á hvert öðru og gjörðir okkar hafa áhrif á aðra. Tökum því samfélagslega ábyrgð okkar alvarlega – ekki aðeins þegar kemur að smitvörnum heldur einnig félagslega þættinum.

Hugum að fólki í okkar nærumhverfi. Er einhver sem á erfitt með að afla sér upplýsinga? Er foreldri í bekknum sem ekki talar íslensku og hægt væri að benda á að síðan covid.is er þýdd á ýmis tungumál. Eigum við skyldmenni sem á erfitt með að nýta sér lesið mál og hægt væri að spjalla við í síma og fara saman yfir hvernig hægt er að verjast útbreiðslu veirunnar?

Síðast en ekki síst þurfum við að vera vakandi fyrir því að í því ástandi sem nú ríkir eykst hættan á því að konur og börn verði fyrir ofbeldi á heimili. Verum því vakandi. Hjálparsíminn 1717 og neyðarnúmerið 112 eru opin allan sólarhringinn.

Munum að lokum að hluti af því að verja heilbrigðiskerfið er að létta á annarri þjónustu sem það veitir, svo sem vegna slysa, og því er mikilvægt að halda sig heima.

Við erum öll almannavarnir. Og við erum öll barnavernd.

Smitrakning er einnig samfélagsmál. Verum sterkur hlekkur í keðjunni og hlöðum niður smáforritinu Rakning C-19

Áreiðanlegar upplýsingar um COVID-19 má finna á síðunum covid.is og landlaeknir.is.

Lýðheilsusvið embættis landlæknis

<< Til baka