06.04.20

Forðumst að nota áfengi eða tóbak sem bjargráð

Embætti landlæknis hefur tekið saman tíu heilræði sem byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað er mikilvægt að hafa í huga til að hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Heilræði dagsins í dag snýr að neikvæðum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu á álagstímum.

Það er ekki gagnlegt að nota áfengi eða tóbak til að takast á við erfiðar tilfinningar eins og áhyggjur og kvíða eða til að slaka á. Neysla áfengis og reykingar veikja ónæmiskerfið auk þess að hafa neikvæð áhrif á heilsu og vellíðan til lengri tíma.

Reykingar hafa neikvæð áhrif á starfsemi lungna og veikja ónæmiskerfið. Fólk sem reykir, notar munntóbak eða rafrettur ætti að gæta sérstaklega vel að handþvotti eða sprittun þar sem það snertir andlit oftar en þeir sem ekki nota tóbak eða rafrettur. Nú gæti verið góður tími til að hætta að nota tóbak eða rafrettur, hægt er að fá aðstoð við það hjá Reyksímanum í síma 800 6030.

Þegar við finnum fyrir kvíða, þunglyndi, okkur fer að leiðast eða ástandið fer að hafa önnur andleg eða líkamleg áhrif, freistast margir til að nota áfengi eða önnur vímuefni til að takast á við þessar tilfinningar. Það er ekki góð leið heldur getur það gert ástandið verra. Það eru því margar ástæður fyrir því að draga úr eða hætta að nota áfengi á þessum álagsstímum.

Vísindamenn hafa vitað í langan tíma að áfengisneysla tengist neikvæðum heilsufarslegum áhrifum á ónæmiskerfið og almenna heilsu. Óhófleg notkun áfengis gerir okkur næmari fyrir lungnabólgu og líkur á að fá bráð öndunarstressheilkenni aukast. Þá getur áfengisnotkun dregið úr bata eftir sýkingar eða aðgerðir. Áfengisneysla þarf ekki að vera langvarandi til að hafa neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar fyrir ónæmiskerfið. Að vera í einangrun eða sóttkví getur tekið á bæði andlega og líkamlega og að nota áfengi til að takast á við ástandið getur gert það verra. Núna er rétti tíminn að skoða vel hvernig við bregðumst við álagi og streitu. Í stað þess að deyfa sig með áfengi eða öðrum vímuefnum er tilvalið að nota aðrar aðferðir. Gott er að huga að því hvað kveikir hjá þér gleði og ánægju. Þetta getur verið eitthvað einfalt eins og að fara í bað, lesa bók, kveikja á kertum eða hlusta á tónlist sem færir þér vellíðan. Gerðu lista yfir hluti sem veita þér ánægju og fylgstu með því þegar neikvæðar hugsanir taka yfirhöndina og skiptu þeim út fyrir jákvæðar.

Evrópuskrifstofa Alþjóðaheilbrigðisstofnunar hefur gefið út staðreyndablað: 
http://www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0010/437608/Alcohol-and-COVID-19-what-you-need-to-know.pdf?ua=1&fbclid=IwAR38-2kQqT8ixtu_XXApWrkd4PFxDG6AHUU51F4XzdSidQsMdvurVBgFP6A 

og leiðbeiningar um áfengisneyslu á tímum covid-19: http://www.euro.who.int/en/health-topics/disease-prevention/alcohol-use/data-and-statistics/infographic-alcohol-and-covid-19-what-you-need-to-know?fbclid=IwAR3ukl6fUocD_mF4UOZiDrG1vlv76FMymyQdMBk01VYTXIl5HcM3Js_xj3k 

.
Ef þú hefur áhyggjur af áfengisneyslu þinni getur þú metið hana hér á Heilsuveru

 

Lýðheilsusvið embættis landlæknis

<< Til baka