03.04.20

Stuðlum að betri svefni með góðum svefnvenjum

Sjá stærri mynd

Stuðlum að betri svefni með góðum svefnvenjum

Embætti landlæknis hefur tekið saman tíu heilræði sem byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað er mikilvægt að hafa í huga til að hlúa vel að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Heilræði dagsins í dag snýr að góðum svefnvenjum.

Góður svefn er nauðsynlegur til að geta tekist á við viðfangsefni dagsins. Svefn hefur m.a. jákvæð áhrif á ónæmiskerfið, einbeitingu, námsgetu og er nauðsynlegur fyrir vöxt og þroska barna. Komum okkur upp góðum svefnvenjum til að ná ráðlögðum svefni miðað við aldur. 

Það hefur sjaldan verið eins mikilvægt að huga að góðum svefnvenjum eins og á þessum fordæmalausu tímum sem við lifum á núna. Svefn hefur m.a. jákvæð áhrif á ónæmiskerfið, einbeitingu, námsgetu og er nauðsynlegur fyrir vöxt og þroska barna. Það er því sérstaklega mikilvægt að ná góðum svefni þegar verkefni dagsins eru krefjandi og það er gott að temja sér að fara að sofa á svipuðum tíma og vakna á svipuðum tíma á hverjum degi.

Svefnþörf getur verið mismunandi en mælt er með að fullorðnir sofi 7 til 9 tíma á nóttu og börn enn lengur, sjá nánar töflu um æskilegan svefntíma eftir aldri. Að vakna úthvíld að morgni er í raun besti mælikvarðinn á það hvort við náum að uppfylla svefnþörf.

Það er margt sem hefur jákvæð áhrif á svefn eins og að hreyfa sig daglega, njóta dagsbirtu fyrst á morgnanna og hafa rólegt og rökkvað á kvöldin áður en farið er að sofa. Það sem getur haft neikvæð áhrif á gæði svefns er t.d. neysla koffínríkra drykkja seinni hluta dags og skjánotkun rétt fyrir svefn. Áfengi hefur einnig neikvæð áhrif á bæði svefnlengd og gæði. Það er mikilvægt að finna leið til að róa hugann rétt fyrir svefn og hafa hæfilegt hitastig í svefnherberginu yfir nóttina. Að lesa bók, stunda hugleiðslu eða núvitund fyrir svefn auðveldar mörgum að sofna og eiga góðan nætursvefn. Hér má lesa frekari ráð sem stuðla að betri svefni.

Það er margt sem breytist í okkar venjum þessa dagana og nokkuð líklegt að reglan sem við höfum komið okkur upp ruglist. Eitt af því sem við ættum samt sem áður að passa vel upp á eru góðar svefnvenjur til að hafa jákvæð áhrif á ónæmiskerfið. Ef þú glímir við svefnvandamál eða þarfnast frekari upplýsinga um svefn er margvíslegan fróðleik að finna á heilsuveru.

Lýðheilsusvið embættis landlæknis

<< Til baka