02.04.20

Góð ráð til foreldra á tímum COVID-19 faraldursins

Sjá stærri mynd

Embætti landlæknis, heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið hafa tekið höndum saman við útgáfu góðra ráða til foreldra á tímum COVID-19 faraldursins. Margvíslegt álag hvílir á foreldrum um þessar mundir en takmarkanir á skóla- og frístundastarfi og aukin áhersla á að fólk vinni heima hafa leitt af sér mikla röskun á daglegu lífi fjölskyldna. Foreldrar eru í flóknu hlutverki við að reyna að samræma vinnu inni á heimili, nám barna og samveru með fjölskyldunni. Á sama tíma eru margir að glíma við áhyggjur af heilsufari, efnahag og atvinnu.

Á tímum sem þessum er því brýnt að styðja við bakið á foreldrum og veita þeim stuðning og aðstoð. Þegar álagið er mikið er aukin hætta á því að samskipti innan fjölskyldunnar bíði hnekki og börn, sem voru í viðkvæmri stöðu fyrir, eiga enn frekar á hættu að verða fyrir ofbeldi eða vanrækslu.

Sem samfélag þurfum við að standa vörð um velferð fjölskyldna og barna. Ef áhyggjur vakna af eigin velferð eða annarra má hafa samband í hjálparsímann 1717 eða neyðarlínu 112. Velferðarþjónusta sveitarfélaga býður margvíslega aðstoð og ráðgjöf til foreldra sem þurfa stuðning, svo sem vegna uppeldis, samskipta í fjölskyldu eða fjárhagsstöðu fjölskyldunnar. Ennfremur má nálgast ráðgjöf og aðstoð vegna sálrænna erfiðleika á heilsugæslustöðvum.

Foreldraráðin eru m.a. unnin í samvinnu við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (World Health Organization) og UNICEF og verða foreldrum vonandi leiðarljós í því flókna hlutverki sem þeir standa nú frammi fyrir.

 

<< Til baka