29.01.20
Ráðleggingar til ferðamanna - Kórónaveira 2019-nCoV
Sóttvarnalæknir mælir með að ferðamenn sleppi ónauðsynlegum ferðalögum til Kína, þar sem faraldur nýrrar kórónaveiru 2019-nCoV er í gangi. Ekki er vitað til að faraldur hafi farið af stað annarsstaðar en í Kína.
Sóttvarnalæknir hvetur einstaklinga á ferðalögum erlendis, sérstaklega þá sem eru í Kína og annarsstaðar þar sem sýkingar af völdum 2019-nCoV hafa verið staðfestar að:
- Fylgjast vel með ferðatakmörkunum sem Kínverjar hafa gert innanlands og aðlaga ferðaáætlanir eins og þurfa þykir.
- Gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti.
- Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni/hósta.
- Forðast samneyti við villt dýr eða dýr á almennum mörkuðum.
- Nota klút fyrir vit við hnerra þegar um kvefeinkenni og/eða hósta er að ræða og þvo hendur reglulega.
Einstaklingar sem hafa verið í Kína og snúa heim eru hvattir til að halda sig heima í 14 daga eftir að þeir hafa yfirgefið Kína, sjá leiðbeiningar til einstaklinga í sóttkví. Ef þeir fá einkenni frá öndunarfærum, sérstaklega með hita, er rétt að hafa samband við heilbrigðisþjónustuna.