27.01.20

Fréttir af útbreiðslu hinnar nýju kórónaveiru (2019-nCoV).

Í dag 27. janúar 2020 hefur sýking af völdum 2019-nCoV verið staðfest hjá um 2.800 einstaklingum og um 80 einstaklingar hafa látist (2,8%). Auk þess eru upplýsingar um alvarleg veikindi hjá fjölda einstaklinga. Enginn einstaklingur hefur enn sem komið er greinst á Íslandi.

Þeir einstaklingar sem greinst hafa eru frá Kína (2.775), Taívan (5), Taílandi (8), Ástralíu (5), Malasíu (4), Singapúr (4), Frakklandi (3), Japan (3), Suður-Kóreu (4), Bandaríkjunum (5), Víetnam (2), Kanada (1) and Nepal (1). Langflest tilfellin eru upprunnin í Kína.

Sóttvarnalæknir gerir ráð fyrir að veiran muni berast hingað til lands og því mikilvægt að grípa til ráðstafana til að hefta útbreiðslu hennar sem mest hér á landi. Engar aðgerðir munu hins vegar tryggja að veiran berist ekki hingað til lands.

Í ljósi þessarar áhættu þá hefur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samvinnu við sóttvarnalækni, ákveðið að lýsa yfir óvissustigi hér á landi. Óvissustig þýðir að fastmótað samráð verður viðhaft samkvæmt fyrirliggjandi viðbragðsáætlunum, upplýsingamiðlun aukin og viðbragðsaðilar munu uppfæra sínar áætlanir.

Viðbrögð yfirvalda hér á landi munu beinast að því að hindra sem mest útbreiðslu veirunnar innanlands, tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir veika einstaklinga og viðhalda nauðsynlegri starfsemi innanlands. Almenningur og ferðamenn hér á landi sem telja sig hafa sýkst af veirunni eru hvattir til að hringja í síma 1700 varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið. Einstaklingar með grunsamlega eða staðfesta sýkingu verða settir í einangrun skv. nánari leiðbeiningum.

Nánari upplýsingar um 2019-nCoV má finna á vef embættis landlæknis.

Fyrirspurnum fjölmiðla svarar Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í síma 663-3624 og í gegnum netfangið kjartanh@landlaeknir.is.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka