15.01.20

Áhugaverður morgunfundur um jákvæða starfshætti á heilsueflandi vinnustað

Fullt hús var á morgunfundi um jákvæða starfshætti og heilsueflandi vinnustaði þar sem prófessor Illona Boniwell, forstöðumaður jákvæðrar sálfræði við Anglia Ruskin háskólann í Englandi var aðalfyrirlesari með erindið „Positive organisational practices for healthy and resilient workplaces“.

Boniwell hefur verið leiðandi í jákvæðri sálfræði í Evrópu undanfarin ár og kennir jákvæða stjórnun við l'Ecole Centrale Paris og HEC og vinnur með fyrirtækjum m.a. við stjórnendaþjálfun um allan heim sem forstöðumaður Positran.

Gunnhildur Gísladóttir sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu stýrði morgunfundinum - sjá má upptöku af fundinum hér.

Morgunfundurinn var sá fjórði í fundaröð um heilsueflingu á vinnustöðum sem er hluti af samstarfi embættis landlæknis, VIRK, og Vinnueftirlitsins um heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum. Markmið samstarfsins er að stuðla að betri heilsu og vellíðan vinnandi fólks á vinnustöðum, fyrirbyggja kulnun og minnka brottfall af vinnumarkaði.

Næsti morgunfundur verður haldinn þriðjudaginn 19. maí þar sem Christina Maslach, heiðursprófessor við Berkleyháskóla í Kaliforníu verður aðalfyrirlesari.

<< Til baka