27.12.19

Varúðarráðstafanir vegna mengunar um áramótin

Á undanförnum árum hefur mengun um áramótin af völdum skotelda oft farið yfir heilsuverndarmörk. Mengunin getur verið erfið fyrir einstaklinga með undirliggjandi öndunarfæra- og hjartasjúkdóma og því mikilvægt að þessir einstaklingar grípi til ráðstafana til að koma í veg fyrir frekari veikindi. Einnig geta heilbrigðir einstaklingar fundið fyrir einkennum frá öndunarvegi í mikilli mengun.

Alvarlegasta mengunin af völdum skotelda er svifryksmengun (sótagnir) sem myndast við sprengingu og bruna og skiptir þá engu hvort skoteldarnir eru vottaðir eða ekki. Allir skoteldar valda svifryksmengun. Þó að brennur um áramótin geti einnig valdið mengun þá er mesta mengunin á þessum tíma af völdum skotelda.

Ráðleggingar til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi af völdum mengunar um áramótin:

  • Forðist útiveru þar sem mikil mengun er til staðar.
  • Lokið og þéttið glugga og hurðir til að koma í veg fyrir mengun innandyra.
  • Takið lyf sem læknar hafa ávísað og ráðlagt til að koma í veg fyrir versnandi einkenni.
  • Leitið til heilbrigðisþjónustunnar ef vart verður öndunarerfiðleika eða andþyngsla vegna mengunar.

 

Sóttvarnalæknir

<< Til baka