01.11.19

Aukning á niðurgangspestum undanfarið

Sjá stærri mynd

Eins og fram hefur komið í fréttum og í upplýsingum frá sóttvarnalækni er mikið um niðurgangspestir þessa dagana, í samfélaginu, inni á dvalarheimilum og á sjúkrastofnunum. Flestar sýkingarnar virðast vera af völdum nóróveiru eins og sjá má í töflu frá sýkla- og veirufræðideild Landspítala og á mynd frá sóttvarnalækni.

Nóróveiran er þekkt fyrir að breiðast einna helst út á veturna og veldur bæði veikindum í samfélaginu og einnig slæmum hópsýkingum/hrinum inni á dvalarheimilum og sjúkrastofnunum. Veiran smitast einkum með menguðum matvælum og vatni en getur einnig smitast beint milli manna. Helstu einkenni nóróveirusýkingar eru frá meltingarvegi með uppköstum og niðurgangi, en nánari upplýsingar um einkenni, smitleiðir og forvarnir gegn nóróveiru er hægt að nálgast á vefsíðu embættis landlæknis og í rafrænum bæklingi sóttvarnalæknis sem kom út árið 2015.

Sóttvarnalæknir vill vekja athygli á eftirfarandi atriðum til að forðast smit og draga úr útbreiðslu sýkla sem valda niðurgangi þ.á m. nóróveiru.

  • Mikilvægt er að þvo sér vel um hendurnar einkum eftir salernisferðir og fyrir meðhöndlun matvæla.
  • Gæta skal vel að hreinlæti við matreiðslu og ekki meðhöndla mat fyrir aðra á meðan einkenni frá meltingavegi eru til staðar og í a.m.k. tvo sólarhringa á eftir.
  • Mikilvægt er fara ekki til vinnu/skóla/leikskóla á meðan einkenni frá meltingarvegi eru til staðar og í a.m.k. einn sólarhring eftir að einkenni hafa gengið yfir.
  • Þeir sem eru með niðurgang skulu forðast heimsóknir á sjúkrastofnanir á meðan einkenni eru til staðar og í a.m.k. einn sólarhring eftir að einkenni hafa gengið yfir.

Athygli skal vakin á því að upplýsa skal sóttvarnalækni um niðurgangs-hópsýkingar.

Sjá nánar leiðbeiningar frá Matvælastofnun um meðhöndlun matvæla.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka