30.09.19

Forvarnardagurinn 2019

Sjá stærri mynd

Miðvikudaginn 2. október verður Forvarnardagurinn 2019 haldinn í flestum grunn- og framhaldsskólum landsins. Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og þá er sjónum sérstaklega beint að unglingum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla.

Á Forvarnardeginum ræða nemendur um hugmyndir sínar og tillögur um æskulýðs- og íþróttastarf og fjölskyldulíf sem geta eflt varnir gegn vímuefnum. Þau vinna í hópavinnu og skrá hugmyndir sínar; síðan er svörum safnað saman til að finna samnefnara í hugmyndum þeirra. Þá gefst nemendum sem fæddir eru á árunum 2003 – 2005, kostur á að taka þátt í stuttmyndasamkeppni þar sem þau vinna með þá þætti sem dregið geta úr áhættuhegðun. Skilafrestur í keppninni rennur út að kvöldi 11. nóvember nk. og verðlaun verða veitt fyrir þrjár stuttmyndir: bestu myndina, þá skemmtilegustu og þá frumlegustu. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu.

Embætti landlæknis stendur að deginum í samstarfi við embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Skátana, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greiningu, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samstarf félagasamtaka í forvörnum.

Í tilefni Forvarnardagsins eru myndbönd ætluð foreldrum send út á miðla sem innihalda skilaboð frá Ölmu D. Möller landlækni og Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra meðal annarra. Heimili og skóli og Samfok eiga allan heiðurinn af þessum mynböndum og færum við þeim miklar þakkir fyrir að fá að nýta þau til að minna okkur öll á mikilvægi forvarna.

Rafrettur

Notkun á rafrettum hefur mjög færst í vöxt meðal íslenskra ungmenna síðustu árin. Umræðunni um rafrettur ætti að skipta í tvennt; annarsvegar er rætt um þær sem verkfæri til að hætta að reykja en hinsvegar blasir við að ungt fólk notar nú rafrettur í síauknum mæli. Vegna þessa og í ljósi umræðu undanfarnar vikur um rafrettur hefur heilbrigðisráðherra beðið um úttekt á þessum málum hérlendis. Nýleg könnun sýnir að 9,5% nemenda í 9. bekk hafi notað rafsígarettu 20 sinnum eða oftar, í 10. bekk er hlutfallið orðið í 17,8% á landsvísu. Dagleg neysla meðal 9. bekkinga er 5,3% en 8,8% hjá 10. bekkingum. Í framhaldsskólum notuðu 23.3% nemenda rafrettur daglega undanfarna 30 daga árið 2018 en árið 2016 voru það 9,8% nemenda.

Þegar nemendur eru spurðir um viðhorf foreldra sinna til vímuefna eins og áfengis, kannabis, sígaretta eða rafretta má sjá að foreldrar hafa mildari viðhorf gagnvart rafrettunni. Þetta er afar athyglisvert og vert er að benda á að foreldrar hafa tækifæri til að upplýsa börn sín betur um skaðsemi rafrettunnar.

Mynd 1: Hlutfall nemenda í 10. bekk sem telja foreldra sína algerlega eða mjög mótfallna vímuefnaneyslu árið 2019.

Rannsóknir hafa sýnt að neysla nikótíns á unglingsárum þegar heilinn er að þroskast hefur neikvæð áhrif á vitræna getu, hæfni til náms og þroska. Þegar rafrettur komu fyrst á markað þóttu þær jákvæður valkostur fyrir þá sem vildu venja sig af sígarettureykingum og áttu að vera skárri en hefðbundnar tóbaksreykingar. Rannsóknir sýna einnig að þeir sem nota rafrettur eru mun líklegri en aðrir til að byrja að nota venjulegar sígarettur, þessar rannsóknir hafa þó ekki enn sýnt fram á orsakasamhengi milli þessa.

Svefn og orkudrykkir

Umræða um svefn nemenda er mikilvæg enda sýnir ný könnun frá Rannsóknum og greiningu að 42% ungmenna í 9. bekk og 54% ungmenna í 10. bekk fá ekki nægan svefn. Í órofnum svefni endurnýjar líkaminn boðefnin og því er hann okkur nauðsynlegur til að halda fullri virkni daglangt. Í framhaldsskólum sofa nemendur enn minna en í grunnskólum eða í 71% tilfella um 7 klst. og minna, 10% af þeim sofa minna en 6 klst. að jafnaði á nóttu.

Mynd 2: Hvað sefur þú að jafnaði margar klst á nóttu? Hlutfall framhaldsskólanema árin 2016-2018

Ef litið er til neyslu orkudrykkja þá hefur orðið sprenging í neyslu þeirra hjá nemendum. Í grunnskólum höfðu 29% nemenda í 9. bekk drukkið einn eða fleiri orkudrykki daglega árið 2018 og 35% af nemendum í 10. bekk. Í framhaldskólum hefur dagleg neysla orkudrykkja með koffíni (einn eða fleiri) aukist úr 22% í 55% á aðeins tveimur árum (2016-2018).

Mynd 3: Hvað sefur þú að jafnaði margar klst á nóttu? Greint eftir neyslu á orkudrykkjum sem innihalda koffín. Hlutfall nemenda í 8., 9., og 10. bekk árið 2018.

Þegar sambandið á milli notkunar orkudrykkja og svefns er skoðað má sjá að þeir, sem drekka fleiri orkudrykki eru líklegri en aðrir til að sofa minna. Í grunnskólum drekka 58% þeirra, sem sofa í um 7 klst. og minna, einn eða fleiri orkudrykki daglega og í framhaldsskólum neyta 54% þeirra sem sofa um 6 klst. og minna fjögurra orkudrykkja eða meira, daglega.

Mynd 4: Hvað sefur þú að jafnaði margar klst á nóttu? Greint eftir neyslu á orkudrykkjum sem innihalda koffín.

Sjá má á þessum niðurstöðum úr grunnskólum að neysla örvandi drykkja og rafretta hækkar verulega þegar í framhaldsskóla er komið. Vert er að huga að umhverfi ungmenna í skólum vegna þessa og huga að því að sala orkudrykkja er alls ekki æskileg í framhaldsskólum og þörf er á að framfylgja lögum um rafrettur í hvívetna í skólum landsins.

Ef nánari upplýsinga er þörf má leita til Dóru Guðrúnar Guðmundsdóttur dora@landlaeknir.is

 

<< Til baka