17.09.19

Öryggi sjúklinga – brýnt er að gera betur

Fyrsti alþjóðadagur öryggis sjúklinga, 17. september 2019

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur ákveðið að 17. september verði alþjóðadagur öryggis sjúklinga. Með því vill stofnunin vekja athygli á umfangi þess verkefnis sem öryggi sjúklinga er ásamt því að hvetja til opinnar og yfirvegaðrar umræðu. Mikilvægt er að nota daginn til að vekja athygli á öryggi sjúklinga og til hvatningar um að gera betur.

Með öryggi sjúklinga er átt við að sjúklingar hljóti ekki skaða af þeirri þjónustu sem ætlað er að bæta heilsu þeirra og lífsgæði. Því miður hefur reynst erfitt að tryggja öryggi í heilbrigðisþjónustu, en áætlað er að um 10% sjúklinga á sjúkrahúsum á Vesturlöndum verði fyrir einhvers konar atviki. Ástæða þess er að heilbrigðisþjónustan er gríðarlega flókin og flækjustig hefur vaxið hraðar en geta mannsins til að aðlagast því og að halda í við öryggi. Þetta er auðvitað ekki ásættanlegt og brýnt að bæta úr.

 Atvik í heilbrigðisþjónustu

Með atviki er átt við að eitthvað fer úrskeiðis við greiningu, meðferð eða umönnun sjúklings, hvort heldur það veldur sjúklingi skaða eða ekki og hver svo sem skýringin er. Algengustu flokkar atvika eru byltur, lyfjatengd atvik, sýkingar og legusár. Önnur atvik eru til dæmis atvik tengd skurðaðgerðum, atvik tengd greiningu sjúkdóma, atvik tengd tækjabúnaði og fleira mætti telja. Talið er að það megi fyrirbyggja allt að 50% atvika og spara þannig bæði þjáningu þeirra sem fyrir verða og fjármuni fyrir samfélagið. Víða er unnið með markvissum hætti til að fyrirbyggja slík atvik, starfsfólki til hróss. Í dag er til að mynda haldið málþing um byltuvarnir, sjá dagskrá.

Árið 2018 voru rúmlega 10.000 óvænt atvik skráð í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Tilgangur með skráningu er auðvitað að greina það sem aflaga fer og að finna skýringar í því augnamiði að bregðast við þannig að atvik endurtaki sig ekki. Um 4.300 atvik voru skráð á Landspítala, tæp 600 á sjúkrahúsinu á Akureyri og 5.300 á öðrum heilbrigðisstofnunum. Algengustu skráðu atvik voru byltur, 5.300 á landinu öllu en lyfjatengd atvik voru um 1.400. Rannsóknir sýna að orsakir atvika eru í flestum tilfellum ágallar í skipulagi en ekki sök einstaklinga sem vinna verkin. Dæmi eru ófullnægjandi mönnun miðað við umfang og eðli verkefna, t.d. of fáir eru á vakt eða of reynslulítið fólk í framlínu, samskipta- og skráningarvandamál þannig að mikilvægar upplýsingar komast ekki til skila, vandamál tengd sjúklingum eins og t.d. tungumálaörðugleikar, ófullnægjandi tækjabúnaður og skortur á nauðsynlegum leiðbeiningum svo dæmi séu tekin.

Árið 2018 voru 45 alvarleg atvik tilkynnt til embættis landlæknis og hefur þeim fjölgað, voru 29 árið 2017. Skýringar á því geta verið hvoru tveggja bætt skráning vegna vitundarvakningar og/eða raunaukning á alvarlegum atvikum. Rannsóknir sýna að þegar alvarleg atvik verða er sjaldan einhverju einu um að kenna heldur leggst margt á eitt. Það er sérstaklega mikilvægt að rannsaka alvarleg atvik vel. Brýnt er að læra af hverju einasta atviki þar sem áherslan er ekki að finna blóraböggul heldur gera úrbætur á kerfislægum þáttum. Til þess ber okkur bæði siðferðileg og lagaleg skylda auk þess sem sjúklingar og aðstandendur eiga rétt á skýringum og viðbrögðum. Viðbrögð við alvarlegum atvikum þurfa að vera skjót, umhyggjusöm og heiðarleg. Það þarf að viðurkenna það sem gerðist, upplýsa og biðjast afsökunar. Jafnframt þarf að rannsaka slík atvik í kjölinn og gera allt sem hægt er til að fyrirbyggja að gerist aftur. Loks þarf að tryggja viðeigandi stuðning og eftirfylgd fyrir þá sem standa næstir hinu alvarlega atviki og gildir það um sjúklinga, aðstandendur og heilbrigðisstarfsfólk.

Embætti landlæknis hefur gefið út leiðbeiningar um viðbrögð gagnvart sjúklingi og aðstandendum, viðbrögð gagnvart starfsfólki stofnunar og viðbrögð stofnunar til að viðhalda og/eða endurheimta trúverðugleika og traust.

Hvernig eflum við öryggi?

Til að efla öryggi sjúklinga þarf að huga að fjölmörgum þáttum. Eitt er að auka þekkingu og vitund bæði heilbrigðisstarfsmanna og sjúklinga um hvar hættur geti leynst. Annað er að skapa umgjörð og verkferla sem koma í veg fyrir eða minnka hættu á atvikum. Sjá leiðbeiningar Eflum gæði og öryggi í íslenskri heilbrigðisþjónustu.

Meðal annars þarf að huga að eftirfarandi:

  1. Mönnun, menntun og starfsþjálfun þarf að vera í takti við umfang og eðli starfseminnar. Við erum daglega minnt á að hér þarf að gera svo miklu betur, ekki síst er brýnt að bæta án tafar mönnun hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.
  2. Vinnuskipulag og starfsumhverfi þarf að styðja við öryggi. Verkferlar þurfa að vera góðir og viðeigandi gæðahandbækur, gátlistar, leiðbeiningar og rafræn kerfi þurfa að vera þannig að styðji við starfsemina.
  3. Öryggismenning er mikilvæg og þýðir að öryggi er ávallt í öndvegi, allir eru á varðbergi og gera allt sem hægt er til að fyrirbyggja atvik. Í þróaðri öryggismenningu ríkir traust og opin samskipti milli starfsmanna og sjúklinga.
  4. Huga þarf betur að áhættustjórnun þannig að hún sé samofin starfi. Sérstaklega þarf að vinna vel til að fyrirbyggja atvik sem eru tíð og atvik sem haft geta alvarlegar afleiðingar.
  5. Skrá þarf gæðavísa til að fylgjast markvisst með gæðum og öryggi þjónustunnar. Dæmi um gæðavísa sem snúa beint að öryggi eru t.d. tíðni spítalasýkinga og tíðni byltna.
  6. Virkja þarf sjúklinga/notendur betur; rannsóknir hafa sýnt að sjúklingar sem taka virkan þátt í meðferð sinni farnast betur. Gefin hafa verið út ráð til sjúklinga sjúklingaráðin 10 sem gilda almennt og svo 8 atriði fyrir þá sem eru á sjúkrahúsi til að forðast byltur, blóðtappa, sýkingar og fleira.
  7. Atvikaskráning: Skrá þarf og bregðast við öllum óvæntum atvikum, sbr. ofan. Embætti landlæknis vinnur nú, í samstarfi við veitendur heilbrigðisþjónustu, að innleiðingu samræmds skráningarkerfis fyrir allt landið.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bendir á mikilvægi stjórnvalda í því að efla öryggi sjúklinga. Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram Heilbrigðisstefnu þar sem áhersla er m.a. á bætta mönnun sem er forsenda öryggis. Þá hefur landlæknir lagt fram Áætlun um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu en öryggi er mikilvægur þáttur gæða. Brýnt er að innleiðing beggja takist sem best. Til þess að efla öryggi þurfa allir að hjálpast að; stjórnvöld, heilbrigðisstarfsfólk og notendur þjónustu. Það er tímabært að taka öryggi sjúklinga fastari tökum.

Landlæknir

 

 

<< Til baka