10.09.19

Starfsréttindi heilbrigðisstarfsmanna í kjölfar Brexit

Í ljósi talsverðrar óvissu sem nú ríkir um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu vill embætti landlæknis koma eftirfarandi upplýsingum varðandi starfsréttindi heilbrigðisstarfsmanna á framfæri.

Miðað er við að Bretland gangi úr ESB 31. október nk. Ef útgöngusamningur Bretlands og ESB nær fram að ganga mun aðlögunartímabil taka við til loka árs 2020. Það þýðir að regluverk ESB og alþjóðasamningar, þ.m.t. tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, gildir áfram um Bretland á því tímabili. Samningur sem Ísland, ásamt Noregi og Lichtenstein, hefur gert við Bretland tryggir réttindi þeirra sem fengið hafa prófskírteini sín viðurkennd á grundvelli framangreindrar tilskipunar fyrir lok aðlögunartímabilsins og einnig þeirra sem lagt hafa fram umsókn um slíkt fyrir lok þess tímabils.

Ef svo færi að Bretland gengi úr ESB án samnings tryggir samningur, sem gerður hefur verið við Bretland, réttindi þeirra sem fengið hafa prófskírteini sín viðurkennd á grundvelli tilskipunar 2005/36/EB fyrir útgöngudag eða lagt hafa fram umsókn um starfs- eða sérfræðileyfi á grundvelli þeirra fyrir útgöngudag. Hins vegar tekur ekkert aðlögunartímabil við, gangi Bretland úr ESB án samnings. Það þýðir að reglur EES-samningsins um gagnkvæma viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi munu þá ekki gilda um þá sem sækja um starfs- eða sérfræðileyfi hér á landi og framvísa bresku prófskírteini. Verða umsóknir þeirra afgreiddar með sama hætti og umsóknir umsækjenda frá ríkjum utan EES og Sviss sem Ísland hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.

Nánari upplýsingar um réttarstöðu íslenskra borgara í kjölfar Brexit er að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Sjá nánar starfsleyfi heilbrigðisstétta.

Nánari upplýsingar veita

Lilja Rún Sigurðardóttir lögfræðingur, svið eftirlits og gæða
Anna Björg Aradóttir verkefnastjóri, svið eftirlits og gæða

<< Til baka