22.08.19

Bið eftir tíma hjá gigtarlækni lengri en viðmið segja fyrir um

Í ljósi ábendinga sem borist höfðu embætti landlæknis frá notendum heilbrigðisþjónustu var gerð hlutaúttekt á aðgengi að göngudeildarþjónustu (e. outpatient care) vegna gigtarsjúkdóma fyrri hluta árs 2019. Skoðað var aðgengi að og notkun á göngudeildarþjónustu á heilbrigðisstofnunum og á starfsstofum sjálfstætt starfandi gigtarlækna. Til hliðsjónar voru höfð viðmið embættis landlæknis frá árinu 2016 um biðtíma þar sem miðað er við að ásættanleg bið eftir tíma hjá sérfræðingi sé 30 dagar. Stuðst var við margvísleg gögn sem og upplýsingar sem fengust með viðtölum við hlutaðeigandi aðila.

Helstu niðurstöður úttektarinnar eru að bið eftir tíma hjá gigtarlækni er nú 2-12 mánuðir sem er mun lengri en viðmiðunarmörk embættis landlæknis segja fyrir um. Slíkt getur haft í för með sér færniskerðingu og skert lífsgæði notenda þjónustunnar. Aðgengi að þjónustu vegna gigtarsjúkdóma er misskipt milli landshluta og þörf er á að jafna það. Ráðgjafarsími göngudeildar gigtar er mikilvægur stuðningur við starf lækna utan deildarinnar og jafnar þannig aðgengi og eykur gæði þjónustunnar en hlutverk deildarinnar í heildarskipulagi heilbrigðisþjónustu við gigtarsjúklinga er þó ekki nógu vel skilgreint. Í úttektinni komu fram áhyggjur af stöðu barna með vefjagigt eða á vefjagigtarrófi og skoða þarf það sérstaklega.

Þá kom einnig greinilega fram að þörf er á heildstæðara skipulagi þjónustu við einstaklinga með gigtarsjúkdóma og skýrari verkaskiptingu til þess að efla flæði og samstarf milli veitenda þjónustunnar. Brýnt er að slík verkaskipting sé veitendum og notendum þjónustunnar kunn til að koma í veg fyrir óþarfa bið og sóun.

Ábendingar embættisins

Heilbrigðisráðuneyti

  • Efla aðgengi sjúklinga með gigtarsjúkdóma að göngudeildarþjónustu, hvort heldur er að göngudeild gigtar LSH eða starfstofum sjálfstætt starfandi gigtarlækna.
  • Jafna aðgengi að þjónustu eftir búsetu sjúklinga svo sem með fjarheilbrigðisþjónustu eða skipulagningu þjónustu í heimabyggð.
  • Skipuleggja vinnustofu með fulltrúum þjónustuveitenda, fulltrúum notenda, Sjúkratryggingum Íslands, heilbrigðisráðuneyti og e.t.v. fleiri aðilum með það í huga að sameinast um skipulag þjónustu vegna gigtarsjúkdóma.
  • Efla þjónustu við börn með vefjagigt eða á vefjagigtarrófi. 

Göngudeild gigtar LSH

  • Skilgreina hlutverk göngudeildarinnar enn frekar til að hámarka skilvirkni og lágmarka sóun.

Sjálfstætt starfandi gigtarlæknar

  • Huga að uppbyggingu þverfaglegrar þjónustu.

Heilsugæsla

  • Auka þátt heilsugæslunnar í meðferð sjúklinga með gigtarsjúkdóma, meðal annars með aðkomu þverfaglegs teymis.

Þá var þeirri sameiginlegu ábendingu beint til göngudeildar gigtar LSH, sjálfstætt starfandi gigtarlækna og heilsugæslunnar að valdefla einstaklinga með gigtarsjúkdóma með fræðslu um heilsulæsi, heilsueflingu og skipulag þjónustu vegna gigtarsjúkdóma.

Nánari upplýsingar gefur Kjartan Hreinn Njálsson aðstoðarmaður landlæknis, netfang kjartanh@landlaeknir.is

<< Til baka