16.08.19

Fréttatilkynning frá Persónuvernd og embætti landlæknis 16.8.2019

Embætti landlæknis og Persónuvernd hófu í morgun yfirferð á sjúkragögnum sem rötuðu í hendur fyrrverandi starfsmanns SÁÁ og hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu daga. Gögnin voru afhent embætti landlæknis, að viðstöddum fulltrúa Persónuverndar, í dag.

Fyrsta athugun á innihaldi gagnanna hefur leitt í ljós að þar er að finna afar viðkvæmar persónuupplýsingar skjólstæðinga SÁÁ, sem hlotið hafa meðferð á Vík á Kjalarnesi. Þar á meðal eru sjúkraskrár rúmlega 250 einstaklinga og innritunarbækur á meðferðarstöð SÁÁ að Vík á Kjalarnesi frá árinu 1997 til 2006, sem innihalda þúsundir nafna. Auk þess er um að ræða fundabækur AA-funda fyrir tiltekin ár frá meðferðarheimilinu að Sogni.

Gögnin eru nú, og munu verða, í öruggri vörslu embættis landlæknis og Persónuverndar á meðan umfang málsins verður skoðað frekar og næstu skref stofnananna verða ákveðin. Hluti af eftirlitsskyldu stofnananna er örugg varsla sjúkraskráa en í lögum um sjúkraskrár nr. 55/2009 segir að ef eftirlit leiði í ljós að verulegar líkur séu á að brotið hafi verið gegn persónuverndarhagsmunum sjúklings skuli brot kært til lögreglu. Hefur lögreglu þegar verið gert viðvart um málið.

Embætti landlæknis og Persónuvernd líta málið mjög alvarlegum augum og verður meðferð þess hagað í samræmi við það.

Embætti landlæknis, sem hefur eftirlit með heilbrigðisþjónustu sem og því að ákvæði laga um sjúkraskrár séu virt, mun stofna til eftirlitsmáls vegna þessa. Þá hefur Persónuvernd hafið frumkvæðisathugun á þeim þætti málsins sem lýtur að öryggi persónuupplýsinga, í samræmi við heimildir í persónuverndarlögum, meðal annars í þeim tilgangi að meta hvernig SÁÁ beri að haga tilkynningu til þeirra einstaklinga sem upplýsingarnar varða.

Upplýst verður um frekari framvindu máls þessa eftir því sem aðstæður leyfa og málinu vindur fram.

Persónuvernd
Embætti landlæknis

 

<< Til baka